Ferðamálasamtök Vestfjarða: hver samþykkti söluna á Vesturferðum?

Merki Ferðamálasamtaka Vestfjarða.

Fundargerð aðalfundar Ferðamálasamtaka Vestfjarða, sem haldin var 4. maí 2021 á Ísafirði, er ekki aðgengileg og ekki tiltækar upplýsingar um það hvort sala á hlutabréfum Ferðamálsamtakanna í Vesturferðum ehf hafi verið rædd þar og samþykkt. Ferðamálasamtökin eiga 24,23% hlutafjár og eru langstærsti hluthafinn.

Bæjarins besta hafði samband við Stíg Berg Sóphusson, stjórnarformann Ferðamálasamtakanna og innti hann eftir því hvenær stjórnin hefði komið saman og samþykkt söluna. „Ég svara þér engu“ svaraði Stígur og sleit samtalinu. Bæjarins besta hefur óskað eftir því að fá afrit af fundargerð stjórnarinnar.

Í stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða eru 7 manns.

Stígur Berg Sphousson er formaður. Aðrir aðalmenn í stjórn eru Henný Þrastardóttir, Ísafirði, Þorgeir Pálsson, Strandabyggð, Kristín Einarsdóttir, Hólmavík, Sigurður Arnfjörð Helgason, Ísafirði, Jón Þórðarson, Bíldudal og Helgi Hjálmtýsson, Bolungarvík.

Varamenn eru Ragnar Ágúst Kristinsson, Ísafirði og Gunnar Ingi Hrafnsson, Suðureyri.

Aðalfund skal halda fyrri hluta hvers árs og kjósa þrjá menn i stjórn til tveggja ára, formann skal kjósa á hverju ári. Aðalfundur fyrir þetta ár hefur ekki verið haldinn.

DEILA