Vestri mætir KV í kvöld á Ísafirði

Karlalið Vestra mætir KV úr Vesturbænum kl 20 í kvöld á Olísvellinum á Ísafirði í Lengjudeildinni. Leikurinn er liður í 9. umferð deildarinnar. Vestri hefur lyft sér upp í 7. sætið með sigri í tveimur síðustu leikjum og er aðeins 4 stigum frá 2. sæti deildarinnar, sem gefur sæti í Bestu deildinni. Með sigri í kvöld færir liðið sér enn nær toppsætunum.

Í kvöld fyrir leik ætla stuðningsmenn Vestra að gera sér dagamun og grilla hamborgara í mannskapinn. Hefst grillið klukkan 19:00. Tilvalið að koma snemma, njóta þess að hlusta á góða tónlist og fylgjast með strákunum meðan þeir hita upp fyrir leikinn.