Minning: Guðmundur Halldórsson 1933-2022

Margir í heimi vísindanna telja að lífið hafi kviknað við heita hveri í sjó eða í heitu umhverfi undir yfirborði jarðar. Eldur er í iðrum jarðar og þaðan er allt líf komið, af eldinum eina sem er ljós af ljósi heimsins, ljósi Guðs. Uppruni okkar er í hafdjúpinu. Við komum úr sjónum. Okkur þykir það e.t.v. ekki heillandi ættfræði, því þá eru við einskonar fiskar á þurru landi og kann það að útskýra vandræðagang okkar allra í lífinu og mankynsins í heild.

En hann Guðmundur Halldórsson, sem við kveðjum hér í dag með virðingu og í djúpri þökk, var án efa ættaður úr hafdjúpunum. Hann var hafsins maður. Sem drengur var hann öllum stundum í fjörunni í kringum smábátasjómennina sem geymdu báta sína í fjörunni við Fjarðarstrætið sem liggur meðfram Prestabugtinni. Hann spurði eitt sinn hvort þeir væru ekki að koma með kola og mönnum heyrðist hann segja gola og upp frá því var hann kallaður Gvendur eða Gummi Golli en heima var hann Mummi.

Sem Sólgötupúki, 16 árun yngri en Guðmundur, man ég þessar karla vel og hjálpaði stundum til við sjósetningu báta og landtöku með því að hlaupa með hvalbeinin eða hlunnana undir kjölinn. Faðir Guðmundar, Halldór Jónsson var æskuvinur móðurafa míns, Guðmundar Halldórssonar og ég þekki því fjölskyldu hans og á góðar minningar um systkini hans öll. Faðir minn, Bolvíkingurinn, Jón Örnólfur Bárðarson, og Guðmundur, voru fimmmenningar sem telst til skyldleika skv. fornri hefð og í dag er einmitt fæðingardagur föður míns. Nóg um það.

Guðmundur er eftirminnilegur. Hann var brennandi í andanum, ákafur og fróðleiksfús og svo bjó hann yfir ríkri frásagnargáfu. Hann var sannur sagnabrunnur og talaði sterka vestfirsku og þá á ég ekki bara við löngu a-hljóðin, langa, tanga o.s.frv. heldur skilgreini ég það að tala vestfirsku, að talað sé af ástríðu og innlifun, með sterkum orðum og rökum, tæpitungulaust og af hreinskilni. Þannig talaði Guðmundur.

Hann var fríður sýnum, vel byggður, með liðað hár, augun lýstu og góðlegur svipurinn skapaði traust, röddin var djúp og sterk, málfarið skreytt orðaforða úr öndvegisritum íslenskrar menningar. Hann var vel menntaður maður og þekking hans var án efa á við margar háskólagráður.

Guðmundur Halldórsson var fæddur á Ísafirði 21. janúar 1933 og lést 30. júní 2022. Foreldrar hans voru Halldór Jónsson fæddur að Fossum í Skutulsfirði 28. apríl 1890 og Kristín Svanhildur Guðfinnsdóttir fædd á Litlabæ í Skötufirði 6. desember 1907. Þau giftu sig árið 1928 og bjuggu allan sinn búskap á Ísafirði, lengst af í Hrannargötu 10.

Systkini Guðmundar eru: Jón Páll, f. 1929 búsettur á Ísafirði, Una f. 1931 d. árið 2000 hún var síðast búsett í Reykjavík, Ólafur Bjarni f. 1936, fórst í bílslysi 1939, Ólafur Bjarni f. 1944, búsettur á Ísafirði.

Guðmundur kvæntist Dagbjörtu Torfadóttur frá Drangsnesi árið 1959 börn þeirra eru:

1. Kristín Svanhildur f. 1954, maki Björn Kristjánsson. Þau eiga þrjú börn Guðmund Halldór, Guðnýju og Jón Arnar. Guðmundur Halldór á tvö börn.

2. Torfi f. 1957, maki Elín Marrow Theodórsdóttir. Þau skildu. Þau eiga tvö börn: Dagbjörtu sem á tvær dætur og Kolbrúnu Lilju.

3. Ása María f. 1961, maki Örn Smári Gíslason. Þau skildu. Þau eiga þrjú börn: Hildi Dagbjörtu, sem á fjögur börn, Örnu Maríu, sem á einn son og Aron Óla, sem á einn son.

4. Guðbjörn f. 1962, maki Fanney Ósk Hallgrímsdóttir. Þau eiga þrjú börn: Sóleyju Dögg, sem á tvo syni, Teit og Lísu.

5. Ólafur Bjarni f. 1966, maki Sonja Kristín Jakobsdóttir. Þau skildu. Þau eiga tvo syni: Arnald og Egil Hrafn.

6. Halldóra f. 1975.

Guðmundur lauk meira fiskimannaprófi frá Sjómannaskólanum í Reykjavík árið 1957. Hann stundaði sjó allan sinn starfsferil á togurum, bátum og trillum á meðan starfsorka leyfði.

Í litlu kveri sem Ólafur Bjarni, bróðir hans skrifaði um hann segir m.a.:

„Hann fæddist á annarri hæð í húsinu Ásbyrgi á Ísafirði en flytur með foreldrum sínum […] og systkinum Jóni Páli og Unu í ný heimkynni Hrannargötu 10 á Ísafirði, sem varð hans æskuheimili.

Á unglingsárum upplifði Guðmundur margt. Hann var sveitadrengur í Ísafjarðardjúpi, vegavinnumaður í Djúpi, skáti á Ísafirði, skíðamaður á heimsmælikvarða. Þar naut hann um tíma leiðsagnar sænsks skíðakennara, Axels Vigströms. Hann lét aðra njóta góðs af sinni kunnáttu og skipulagði fjölda skíðamóta fyrir ungt fólk. Eitt sumar réði hann sig sem kaupamann að Húsafelli í Borgarfirði. Þar hlotnaðist honum sá heiður að bera léreft, liti og pensla fyrir einn þekktasta listmálara Íslendinga fyrr og síðar Ásgrím Jónson, meðan hann var að vinna sumar af sínum ódauðlegu verkum, í fögrum sveitum Borgarfjarðar.

Það er sagt að snemma beygist krókurinn. Guðmundur er alinn upp við sjávarsíðuna og eins og Stjána bláa dreymdi hann ungan skip og sjó. Það var því upphafið að fimmtíu ára sjómannsferli sem farmaður í siglingum erlendis en einkum þó fiskimaður á öllum tegundum skipa og með þeim veiðarfærum sem þekkjast á Íslandi. Sjómannsferill hans væri efni í nokkrar bækur. . . .“

Guðmundur var stór í sínum tilfinningum, örgeðja og mjög virkur. Mágkona hans sagðist aldrei hafa séð hann reiðan. Óli bróðir hans sagði við mig: Hann lærði af Kitta ljúfi að hæla fólki upp í hástert, var uppörvandi og hvetjandi maður sem sagði sögur með tilþrifum.

Nokkru fyrir aldamótin hringdi ég í Guðmund og bað hann að heimsækja mig í Garðabæinn, þar sem ég bjó þá, ef hann ætti leið suður og segja mér sögur af Kitta ljúfi sem var nágranni minn í bernsku á Ísafirði. Ég kom oft í harðfiskhjall hans. Hann var eini fullorðni maðurin í hverfinu sem gaf sig að okkur börnunum og spjallaði við okkur með sínu ríkulega málfari og kímni. Guðmundur sagði mér sögur af honum í næstum klukkutíma og ég tók það allt uppá band. Þar var hann í essinu sínu. Guðmundur var einkar gamansamur og sagði margar sögur.

Hann var málafylgjumaður og kunnur fyrir réttindabaráttu fiskimanna, einkum smábátasjómanna. Línuívilnun er hans barn og hugsunin að baki hennir hvíldi m.a. á umhverfis- og byggðasjónarmiðum.

Þegar kvótinn hvarf úr Bolungavík og fleiri byggðarlögum á Vestfjörðum, efndi hann til borgarafunda og fór víða og ræddi lausnir í atvinnu- og byggðamálum. Í kjölfar þess hlaut hann sæmdarheitið Vestfirðingur ársins og var það ekki eini heiðurinn sem honum hlotnaðist á ævinni. Hann var heiðursfélagi í Landssambandi smábátasjómanna og Eldingu, smábátafélaginu á Vestfjörðum.

Hann var staðráðinn í að leita hófanna og sækja hærra og hærra. Hann stefndi á landsfund Sjálfstæðisflokksins og þar ætlaði hann að efla hag Vestfjarða og sjómanna á svæðinu.

Hann sá til þess að verða kosinn á landsfundinn og fór á fund sjávarútvegsnefndar og bar upp tillögu sína um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Í bókinni Íslenskir sjómenn segir m.a.:

„Menn tóku ágætlega við henni, fulltrúar LÍÚ ekki mættir. Þegar kvisaðist út […] hvers konar tillaga væri á ferðinni frá gamla skipstjóranum frá Bolungarvík þá týndust [sic] þeir [af] fundi sjávarútvegsnefndar Sjálfstæðisflokksins, mennirnir frá LÍÚ. Þetta var tvöhundruð manna nefnd, eða var það í þá daga […] Guðmundur tapaði kosningum í henni, með einu atkvæði.“

Guðmundur gafst ekki upp við svo búið. Hann steig í pontu fyrir framan alla landsfundarfulltrúana, tólfhundruð manns, með ráðherra á bæði bak- og stjórnborða, sem voru á móti tillögu hans.

Hann var ræðu- og sagnamaður af Guðs náð og talaði alvöru vestfirsku. Áhugi fundarmanna á máli hans var með ýmsu móti. Það glamraði í kaffibollum og fólk skrafaði undir byrjun ræðunnar en svo datt á dúnalogn og eyrun opnuðust. Guðmundur flutti mál sitt af trúarhita og með sterkum rökum, eins og honum einum var lagið, talaði skýrt og skorinort með sinni sterku rödd og útgeislun allri og hreif svo að hann fékk sína tillögu samþykkta við dynjandi lófatak.

Sagt hefur verið að Sjálfstæðiskonur úr Garðabæ, sem höfðu enga reynslu af sjómennsku, en kunnu þeim mun meir á ræktun skrautjurta, kökubakstur og kjólatísku. Þegar þær heyrðu þennan vestfirska sjómann tala, þá urðu þær svo yfirmáta hrifnar, kiknuðu bókstaflega í hnjánum og kusu allar með tillögu hans og meirihluti fundarmanna mátaði þar með skoðanir ráðherranna og karlanna í LÍÚ.

Guðmundur sagði eitt sinn í blaðaviðtali: „Við reyndum allt til að vekja athygli á málstað okkar, því tilveruréttur byggðarlaganna var í hættu. Þetta var upp á líf eða dauða,“ og „Línuívilnunin var lykillinn að nýrri uppbyggingu hér í plássinu og hefur skipt sköpum fyrir mörg minni byggðarlög.“

Áhugi hans á velferð byggðanna hélt allt til enda. Í maí s.l. fóru þeir bræður, hann og Óli, í tvær ferðir um Suðurfirðina til að kynna sér atvinnuuppbyggingu þar og lesa má ítarlega lýsingu á ferðinni á Facebook síðu Ólafs.

Guðmundur Halldórsson var einstakur maður en hann var auðvitað eins og við öll, bæði með kosti og galla. Svona er lífið hjá okkur sem erum stundum eins og fiskar á þurru landi. En oftast var Guðmundur þó sem „fagur, fagur fiskur í sjó“, sprelllifandi og glaður.

Hann var dugmaður en gat líka verið klaufskur og af ökumannshæfileikum hans fer fáum sögum. „Ekurðu ekki með gleraugu, afi? spurði afastelpa. Nei, ég geymi þau í hanskahólfinu því ég man leiðina. Ég nota þau næst þegar ég fer í sjónmælingu.“

Barnabörnin sögðu mér frá því þegar afi reyndi að kenna þeim öll örnefni á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur. Þau muna tilsvör hans og málfar, skötuveislurnar þar sem þau sem vildu fengu pulsu. Honum var einkar annt um barnabörnin sín og spurði oft um þau og hann var reyndar mikið fyrir börn yfirleitt og átti gott með að nálgast þau og ræða við þau.

Þegar þau komu í heimsókn til afa urðu þau að heilsa uppá Lunda sem stendur uppstoppaður á bókahillunni. Svo tók hann þau á kné sér, hélt um hendur þeirra og söng gamlar vísur.

Ég geri hér stutt hlé og býð ykkur að rísa úr sætum og taka undir í söng:

Róum við til landanna,

velbornir menn,

tökum fast í árarnar

og róum út á mið.

Sækjum okkur feitan fisk

og flyðruna við

ekk’er gott að bítast við

það Bárðar lið.

„Föðurland vort hálft er hafið“, segir í sjómannasálminum fagra sem sunginn verður eftir minningarorðin. Þau eru svo sönn. Við eigum ekki bara landið, heldur líka hafið og fiskimiðin, enda þótt þau séu um þessar mundir, að hluta til, í undarlegri gíslingu sem vonandi lýkur með Guðs hjálp og lausn.

Guðmundur var sannur bardagamaður fyrir réttlæti. Hann barðist gegn kvótakerfinu eins og það er núna. Auðvitað þarf að vera kvótakerfi en framsalsheimildin og ógöngur kerfisins eru Alþingi til skammar að mínu mati og ég leyfi mér að tala hér um þetta mál á minni vestfirsku.

Hann barðist líka fyrir réttindum Halldóru dóttur sinnar, að hún fengi að njóta sjálfsagðra mannréttinda, gæti eignast íbúð og bíl og fengi notið alls hins besta.

Í veikindum Dæju konu sinnar barðist hann sem hetja fyrir hennar hag.

Sorgin var mikil eftir fráfall hennar.

Guðmundur kom víða við sem sjómaður. Hann var á skútunni Gróttu, kokkur á Mumma III hjá Agnari gamla, um tíma á Bláfelli, sænsku skipi og þar lærði hann dálitla sænsku. Hann var á mörgum togurum; Marz, Júpiter, Austfirðingi, Norðlendingi og ísfirsku togurunum Sólborgu og Ísborgu. Þegar skuttogararnir komu varð hann stýrimaður á Guðbjarti ÍS til margra ára en var síðan á Má í Ólafsvík. Sjómannsferlinum lauk hann á tryllunni Tóta ÍS 12 sem síðar varð ÍS30.

Ég minnist frásagnar hans í útvarpsþætti af björgunaraðgerðum þegar togarinn Eiríkur rauði strandaði við Grænuhlíð árið 1955. Hann var í sparifötum á sunnudegi og rölti niður á Bæjarbryggjuna, en á þeim tíma átti fólk aðeins frí á sunnudögum. Þar var verið að smala mönnum um borð í skip, til að fara á slysstað. Og Guðmundur fór um borð í sparifötum og fínum herraskóm. Frásögn hans er mögnuð og meistaralega fram sett.

50 árum eftir strandið stóð hann fyrir því að kalla saman skipverja sem lifðu slysið af og björgunarmenn. Endurfundir þeirra fóru fram með pomp og prakt á Ísafirði.

Hann flutti til Drangsness, æskuslóða Dagbjartar. Þar byggðu þau hús og eignuðust bát. En Adam var ekki lengi í Paradís. Guðmundur lenti í skipsskaða þegar fyrsti báturinn sem hann eignaðist og gerði út frá Drangsnesi og bar nafn móður hans, Kristín Svanhildur, strandaði og hann komst af við annan mann með því að þeim tókst að stökkva upp á klappir. Þar sátu þeir blautir og kaldir og horfðu á bátinn brotna og hverfa í brimið. Guðmundur fann ekkert fyrir nístingskuldanum því hugur hans var við bátinn sem var ónýtur og við framtíðina.

Í kjölfar þess hafði hann samband við móðurbróður sinn, Einar Guðfinnsson, sem varð til þess að fjölskyldan flutti til Bolungavíkur árið 1962. Þar fengu þau húsnæði og hann skipsrúm sem stýrimaður. Bolungarvíkurárin voru góður tími og afar kært var með Guðmundi og Dæju og Einari frænda og Elísabetu.

Guðmundur stóð m.a. fyrir merku sjóvinnunámskeiði í Bolungavík til að kenna strákum vinnubrögð til sjós.

Þá má nefna skíðamótin sem hann stóð fyrir á Ísafirði og síðar í Bolungavík og mér var sagt að hann hafi verið upphafsmaður svonefndar Anrésar Andar leika í Bolungavík, sem blómstruðu síðar á Akureyri.

Um tíma kom hann tvisvar í viku í Hvestu á Ísafirði, vinnustað fatlaðra, þar sem Halldóra dóttir hans starfar og gladdi fólk með nærveru sinni.

Ekki er laust við að ég hafi fundið fyrir því við undirbúning þessarar athafnar að bæði Bolvíkingar og Ísfirðingar geri tilkall til Guðmundar og það skil ég vel enda sjálfur Bolvíkingur að hálfu og fæddur og uppalinn á Ísafirði. Við skiptum honum bara á milli okkar. Ég hef búið lungann af ævi minni í Reykjavík en borgarbúar bítast samt ekkert um mig við Vestfirðina!

Margt hefur á daga Guðmundar drifið á ævivegi hans. Fyrr var minnst á þegar báturinn hans brotnaði. Seinna varð hann fyrir því að hálsbrotna og það var eiginlega hreint kraftaverk að hann kæmist í gegnum það og í því sambandi skipti sköpum, án efa, þekking og færni Halldórs Jónssonar, frænda hans, bæklunarskurðlæknis.

Til er gamansöm frásögn starfsfólks um ástand Guðmundar er hann kom á deildina og töluðu þau um manninn sem hefði komið „með höfuðuð undir hendinni.“ Lífskraftur Guðmundar var mikill og hann naut endurhæfingar á Grensásdeildinni og náði sér undravel. Um árabil fór hann einnig í líkamsrækt á Sjúkrahúsinu á Ísafirði og hlakkaði til hvers tíma því þar hitti hann fólk sem hann þekkti og gat spjallað við. Börnin hans sögðu við mig að hann hafi aðallega verið að sækja þangað í félagsskap. Hann var alla tíð mjög félagslyndur og vissi að mikilvægt væri að þjálfa vel málbeinið.

Hvernig hann komst í gegnum áföll og lagði sitt af mörkum til eflingar réttlætis og sanngirni í þjóðfélaginu, er okkur öllum hvatning til að horfa ætí fram á veginn í trú og von. Guðmundur ólst upp við trú sem miðlað var af móður og föður, kirkju og skóla og samfélaginu sem slíku.

Við Ísfirðingar vöndumst því margir í bernsku að fara í barnamessur í kirkjunni, á samkomur barna í Salem hjá hvítasunnumönnum og á Herinn þar sem gítarar og tambúrínur stýrðu taktföstum söng.

Margur sjómaðurinn er trúaður í nánd sinni og glímu við hafið. Trúin fylgir mannkyninu og mun gera það um alla framtíð. Trúin er hluti af lífinu og efinn líka.

En því er nú svo farið og hefur ætíð verið að enginn getur sannað tilvist Guðs né afsannað, engin guðfræði og engin vísindi ráða við það verkefni og því lifir trúin og vonin á meðal okkar án þess að vera skilgreind í excelskjölum eða lógaritmum því hún býr í „brjóstkirkjunni“ eins og það er kallaði í Íslensku hómilíubókinni frá því um 1200, helgidómi hjartans.

Bókvitið, sem er í höfði okkar ræður ekki við hinar stóru spurningar, skilur hvorki óendanleika né ást, en brjóstvitið gerir það og kviðvitið, sem ég hef kallað svo í grein minni, Vitstöðvarnar þrjár, það stýrir samkennd okkar og ást til alls sem lifir. . . .

Við erum í þakkarskuld við lífið, fyrir umheim og náttúru, fyrir fiskinn í sjónum og allt sem lífsanda dregur. Lífið er komið úr hafdjúpinu fyrir Guðs kraft og svo eru það óravíddir geimsins sem enginn þekkir til fulls nema sá alvitri hugur sem er að baki þessu öllu. Við erum hluti af einu stóru samhengi.

Þessi útför er sorgarathöfn en hún er um leið mikil þakkarhátíð. Við kveðjum mætan mann sem markaði djúp spor.

Guð blessi minningu Guðmundar Halldórssonar og megi Guð blessa þig og leiða sem enn ert á lífsveginum.

Amen.

—–

Kveðjur:

Frá börnum og tengdabörnum Ólafs Bjarna, Sigurði Páli og Hrafnhildi Ýr Elvarsdóttur í Lærdal, Noregi og frá Halldóri Karli og Filipu Teles.

Frá dóttur Salbjargar, fósturdóttur Ólafs Bjarna,  sem heitir Ósk Mubaraka. Hún varð að fara heim vegna Covid 19. Hún þakkar fyrir stuðning og hvatningu s.l. vetur. Ósk, Hjálmar og fjölskylda

Frá börnum og tengdabörnum Jóns Páls Halldórssonar:

Halldóri og Maríu Guðnadóttur

Guðfinnu og Halldóri Árnasyni

Pálma Kristni og Jóhönnu Jóhannesdóttur.

Þau sakna þess öll að eiga ekki þess kost að vera við athöfnina. Guðmundur var þeim öllum mjög kær.

Þrír sonasynir Einars Guðfinnssonar senda kveðju sína og „minnast einlægrar vináttu og væntumþykju Guðmundar frænda síns í þeirra garð og stórfjölskyldunnar allrar.  Minnistæð er einstök umhyggja þeirra Guðmundar og Dæju við Elísabetu ömmu okkar og Einar afa er þau bjuggu húsinu með þeim og önnuðust þau og studdu í daglegu lífi.  Því miður áttum við ekki kost á að kveðja frænda okkar hinstu kveðju hér í dag.  Við sendum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.“ Undir þetta rita:

Einar Jónatansson, Guðrún B. Magnúsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Sigrún Þórisdóttir, Gísli Jón Hjaltason og Anna Kristín Ásgeirsdóttir.“

Svo er hér kveðja frá Sigurði Þorleifssyni, samstarfsmanni Guðmundar til margra ára.

Hjörtur Torfason, fv. hæstaréttardómari, sonur Torfa Hjartarsonar, sem var sýslumaður á Ísafirði áður fyrr, bað fyrir kveðju til ástvina Guðmundar og sagði „við Gvendur töluðum oft saman og ólumst upp í Hrannargötunni, ég á nr. 4 og hann á nr. 10.“ Hjörtur hefur sterkar taugar til Ísafjarðar en hann var 3 árum yngri en Guðmundur og flutti suður 8 ára. Römm er sú taug!

Þá senda vinir úr „Óla-kaffi“ kærar kveðjur en þar lét hann sig ekki vanta og mætti daglega og svo vinirnir í „Braga-kaffi.“ Hann hitti líka karlana í „Séð og heyrt“ á Olísstöðinni í Bolungavík og ég veit að hugur allra þessara vina hans er með okkur hér í dag.

Frá Arthuri Bogasyni, formann Landsambands smábátaeigenda:

Guðmundur Halldórsson er ein hjartahlýasti maður sem ég hef kynnst. Ekki einatt það, hann var kempa, baráttumaður fyrir réttlæti og þoldi ei órétt. Einna stoltastur var hann af þætti sínum í því að svokölluð línuívilnun var færð í lög. Þar lék hann aðalhlutverk, enda kallaði ég hana Línuívilnun Guðmundardóttur.

Blessuð sé minning þessa góða drengs.

Minningarorð Arnar Bárðar Jónssonar

+Guðmundur Halldórsson 1933-2022 | Örn Bárður Jónsson (ornbardur.com)

DEILA