Ísafjörður: dýpkunin samkvæmt áætlun

Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarhafna segir að ekkert bendi til annars en að Björgun muni ljúka umsaminni dýpkun í Sundahöfn á tilsettum tíma. Hann segir að verktíminn sé á bilinu maí – loka október og að Björgun hafi verið að kaupa afkastameira skip fyrir dýpkun. Skipið er komið til landsins frá Spáni og heitir Álfsnes.

Að sögn Guðmundar afkastar nýja skipið um 500 þúsund rúmmetrum á mánuði og mun því ljúka dýpkuninni í Skutulsfirði á einum mánuði. Jafnvel þótt dragist að hefja framkvæmdir fram í september sé nægur tími til stefnu.

Um 100 þúsund rúmmetrar af dýpkuninni verða fluttir inn í Álftafjörð í landfyllingu við Langeyrina, um 200 þúsund rúmmetrar fara í fyllingu á Suðurtanga og líklega fara önnur 200 þúsund rúmmetrar í fyllingu á norðanverðri Skutulsfjarðareyri.

Að sögn Guðmundar fer dýpkunarskipið fyrst til verkefna á Hornafirði og Akureyri áður en það kemur til Ísafjarðar.