Ísafjarðarbær: 60 m.kr. hækkun kostnaðar vegna myglu í Grunnskóla Ísafjarðar

Grunnskólinn á Ísafirði.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur hækkað fjárveitingar til Grunnskóla Ísafjarðar um 60 m.kr. vegna viðgerða og eru þær nú nærri 72 m.kr. Í byrjun maí var greint frá því að rakamælingar í kennslustofum á 2. hæð hefðu leit til þess að mygla fannst í öllum kennslustofnunum. Ákveðið var þá að rýma stofurnar og að þær verði ekki teknar í notkun aftur fyrr en að framkvæmdum loknum.

Á bæjarráðsfundi á mánudaginn var lagt fram minnisblað sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs um stöðu framkvæmda í Grunnskólanum á Ísafirði. Helstu forgangsmál eru að fjarlægja ónýta glugga og gler, steypuviðgerðir m.t.t. járnabindingar, sprunguþéttingar að utan og innan, endurnýja gler og glugga, múra hús að utan, og skipta út gólfdúkum.

Bæjarráðið afgreiddi breytingar á fjárhagsáætlun ársins vegna framkvæmdanna. Hækkar kostnaðurinn um 60 m.kr. Hækkuninni er mætt annars vegar með styrk 16 m.kr. sem veittur er til að rífa skúra og hins vegar með því að færa 44 mkr. milli verkefna í liðnum viðhald húsa. Er fært á Grunnskólann og af nokkrum verkefnum. Fimmtán milljónum kr. er frestað vegna Sundlaugar á Austurvegi , 8 m.kr. til skólahúss á Flateyri er frestað, 7 m.kr. til Safnahúss frestast og 10 m.kr. á Eyri er einnig frestað.

DEILA