Grunnskólanemendum með erlendan bakgrunn fjölgar

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar voru nemendur í grunnskólum 46.859 haustið 2021 og hafa ekki áður verið fleiri nemendur í skyldunámi á Íslandi.

Grunnskólanemum hefur fjölgað um 171 frá haustinu 2020, eða um 0,4%. Skýringin er aðallega sú að nemendum fjölgar vegna flutnings til landsins.

Í fyrsta skipti birtir Hagstofan tölur um nemendur í grunnskólum eftir bakgrunni og ná tölurnar aftur til haustsins 2006. Á því tímabili hefur nemendum án erlends bakgrunns fækkað úr rúmlega 37.900 í tæplega 34.700; úr 84,5% grunnskólanema í 74,0%.

Á móti vegur að nemendum með erlendan bakgrunn hefur fjölgað, mest innflytjendum af annarri kynslóð, þ.e. þeim sem eru fæddir á Íslandi en báðir foreldrar eru innflytjendur. Þeim fjölgaði úr 230 árið 2006 í rúmlega 2.600 árið 2021. Þá hefur innflytjendum fjölgað á sama tíma úr tæplega 1.000 í tæplega 2.400.

Nemendum sem hafa erlent tungumál að móðurmáli hefur fjölgað ár frá ári. Haustið 2021 höfðu 5.810 grunnskólanemendur erlent tungumál að móðurmáli, eða 12,4% nemenda, sem er fjölgun um tæplega 200 nemendur frá árinu áður.

DEILA