Fetar í fótspor forfeðranna segir Hreinn Birkisson

Hreinn Egget Birkisson í brúnni á Björgu EA 7. Myndir/samherji.is/einkasafn/Björn Steinbekk

Hreinn Eggert Birkisson fyrsti stýrimaður á Björgu EA 7, togara Samherja, segist vera á vissan hátt að feta í fótspor forfeðranna í Bolungarvík í viðtali sem birt er á vefsíðu Samherja „Já, það má klárlega segja að sjómennska sé í blóðinu og þá sérstaklega skipstjórn. Pabbi er skipstjóri, annar afi minn stundaði sjóinn í nokkur ár og hinn var skipstjóri, einnig langafar og frændur sem voru skipstjórar og einn vélstjóri.“

Hreinn Eggert er sonur Birkis Hreinssonar og Svölu Jónsdóttur sem bæði eru Bolvíkingar. Bróðir Svölu er Guðmundur Þórarinn Jónsson, en bæði Birkir og Guðmundur eru skipstjórar hjá Samherja. þá má nefna að Víðir Jónsson bróðir þeirra Svölu og Guðmundar Þórarins var lengi skipstjóri á Kleifaberginu.

Viðtalið birist hér með góðfúslegu leyfi ritstjóra Samherjafrétta.

Sex ára og hauga bræla

„Fyrsti túrinn minn var með Guðmundi frænda skipstjóra á frystitogaranum Baldvin Þorsteinssyni EA. Við vorum tveir, ég sex ára gutti og frændi minn Heiðmar Guðmundsson, níu ára, sem fengum að fara með og þetta var náttúrulega heilmikið ævintýri fyrir okkur. Pabbi var þá á öðru skipi Samherja, Þorsteini EA, og vorum við ferjaðir yfir til hans eftir viku úthald með Guðmundi og hans áhöfn. Ég man ágætlega eftir þessum túr, varð sjóveikur og í minningunni var hauga bræla sem ég er nú ekki viss um að hafi verið kórrétt.“

Framtíðin ákveðin

Kolmunni frystur um borð í Vilhelm Þorst.syni 2019

Árin liðu og sautján ára var Hreinn munstraður sem háseti á Baldvin Þorsteinsson. Þar var stefnan varðandi framtíðina ákveðin. Sjómennskan heillaði sem sagt.

„Þegar ég hafði verið tvö sumur á sjó fann ég að sjómennskan átti ágætlega við mig. Góðu heilli stóðu foreldrar mínir með mér og úr varð að ég fór í Skipstjórnarskólann, sem síðar breyttist í Tækniskólann. Þaðan útskrifaðist ég svo með full skipstjórnarréttindi. Þau sögðu heillavænlegast að ég menntaði mig í sjómennsku, fyrst ég vildi fara á þessa braut í lífinu.“

Valinn maður í hverju rúmi

Hreinn hefur aðallega verið á Björgu frá því togarinn kom nýr til landsins, fyrir um fimm árum síðan. Fyrst sem annar stýrimaður og síðustu árin sem fyrsti stýrimaður.

„Já, ég náði í skipið til Tyrklands. Það eru viss forréttindi að taka við nýju skipi, móta og þróa alla verkferla um borð í samvinnu við áhöfnina. Öll sú vinna hefur gengið ótrúlega vel enda vanir menn í hverju rúmi. Það hjálpaði mér klárlega að hafa verið annar stýrimaður í upphafi, þannig náði ég að kynnast öllum þáttum á millidekkinu í þaula. Í raun má segja að togarinn sé fljótandi tölvuver, sjálfvirknin er ansi mikil sama hvert litið er. Allur aðbúnaður er góður, sjóhæfnin er gríðarleg og skipið fer vel með mannskapinn. Skoðanir um skrokklagið eru nokkuð skiptar en sjálfum finnst mér það fallegt enda belgurinn á stefninu hrein snilld.“

Ekki einhver stráklingur

Hreinn er í yngri hluta áhafnar Bjargar. Reyndar er það svo að einn í áhöfninni var einmitt á Þorsteini EA þegar þeir frændur fóru á milli skipa í sínum fyrsta túr.

Háseti á Björgúlfi EA árið 2008

„Þetta er ekkert vandamál í mínum huga enda er sjómennska fyrst og fremst sameiginlegt verkefni allra í áhöfninni, þar sem traustið er í forgrunni. Nei, ég verð ekkert var við að það sé litið á mig sem einhvern strákling, síður en svo. Áhöfnin er einstaklega samheldin enda hafa flestir verið hérna frá upphafi og það segir sína sögu.“

Gott heilræði

Hreinn segist ekki hafa komið sér upp alvöru hjátrú, kannski gerist eitthvað slíkt með tíð og tíma. Birkir Hreinsson, faðir Hreins, gaf honum heilræði fyrir fyrsta túrinn sem fyrsti stýrimaður.

„Hann hefur reyndar gaukað að mér nokkrum góðum og hagnýtum ráðum í gegnum tíðina. Hans fyrsta heilræði þegar ég fór fyrst í brú var að yfirgefa aldrei brúna nema þar væri einhver til að taka við stjórn. Þetta er gott ráð,“ segir Hreinn Eggert Birkisson fyrsti stýrimaður á Björgu EA 7.

DEILA