Ferðafélag Ísfirðinga: Kaldalón – Dalbær -Steinshús laugardaginn 23. júlí

Brottför: Kl. 8 á einkabílum frá Bónus á Ísafirði. Keyrt inn í Kaldalón þar sem við tekur gönguferð inn að jökli. Eftir gönguferðina verður farið í Dalbæ og Steinshús.

Vegalengd um 7-8 km, göngutími um 4 klst., upphækkun svo lítil að það tekur því ekki að nefna hana.

Hrímþurs kolblár nálgast freðið frón,

fer hann geyst og bítur skjaldarrendur,

þá er nyrztu byggðum búið tjón,

berjist hann við kaldar Íslands-strendur.

Svanir flýja, kólnar Kaldalón,

kyngihríð af Drangajökli stendur.

Dís á vori faðmar fjallaþröng,

fyllir loft af þúsund radda hljómi.

Fögur engi, björk og blómaföng,

brosa þá, er hrökkur  vetrardrómi.

Hrynja fossar undan ennisspöng,

öldnum jökli brennur sigurljómi.

(Úr ljóðinu Við Kaldalón e. Lárus Þórðarson frá Börmum í Reykhólasveit)

Kaldalón er stuttur fjörður, um það bil fimm kílómetra langur við norðanvert Ísafjarðardjúp. Inn af honum er dalur þar sem Drangajökull skríður fram. Drangajökull er fimmti stærsti jökull landsins. Jökuláin Mórilla rennur um vaðla og leirur um lónið sjálft í fjölmörgum farvegum. Hlíðarnar upp að lóninu eru kjarri vaxnar. Austan megin hafa varðveist húsarústir Trymbilstaða. Vestan Mórillu er Lónhóll þar sem munnmæli segja að eitt sinn hafi staðið bær sem farist hafi í jökulhlaupi á 18.öld. Fyrir ofan hólinn er kletturinn Kegsir með rauðleitan drang sem heitir Sigga.

Þegar gengið er inn dalinn taka við flatir grasbalar og loks þverhníptir hamraveggir. Í dalbotninum, að austan, eru 300 metra há björg sem kallast Votubjörg. Að baki þeirra taka við enn hærri hamraveggir þar sem Kaldalónsjökull skríður niður í dalinn og Mórilla steypist niður í háum fossi. Kaldalónsjökull er skriðjökull úr Drangajökli.

Gönguleið er upp úr Kaldalóni á Ármúla (381 m) en austar rís Háafell (690 m). Frá veginum í botni Kaldalóns er vinsæl gönguleið að Kaldalónsjökli en það er sú leið sem félagar í Ferðafélagi Ísfirðinga ætla að ganga á laugardaginn. Drangajökull er að mestu sprungulaus milli skriðjöklanna í Kaldalóni og Leirufirði og því óhætt að ganga hann á flestum árstímum. Jökullinn er hins vegar mun sprungnari austan megin og því þarf að varast skriðjöklana sem ganga niður í Bjarnadal og Reykjarfjörð og sprungur út frá þeim.

Hægt er að ganga á jökulinn upp frá Bæjum eða úr Kaldalóni. Það tekur um 9 – 10 klst. fyrir ferðamann með bakpoka að ganga yfir Drangajökul miðað við að hann hefji gönguna við Mórillubrú í Kaldalóni og henni ljúki við hús í Reykjarfirði og aðstæður séu góðar til gönguferðar.

Í Kaldalóni eru líparíthraun sem eiga uppruna sinn til stórrar megineldstöðvar sem gengur undir Drangajökul og fram í Kaldalón frá botni Hrafnsfjarðar í Jökulfjörðum. Eldstöðin er talin vera um 12 milljón ára gömul.

Jökullinn hefur bæði hörfað og þynnst skv. mælingum. Í Kaldalóni liggja nokkrir jökulgarðar þvert yfir dalinn og nefnist sá fremsti Jökulgarður. Hann er þakinn gróðri.

Gróðurfar í Kaldalóni er að hluta til flóagróður og að hluta til hálendisgróður. Fyrsta jökulaldan sem gengur yfir dalbotninn er gróin lyngi og birkikjarri en fyrir innan hana eru gróðurlitlir aurar vaxnir melagróðri. Móasef er algengasta tegundin en auk þess má sjá axhæru, hvítmöðru, grasvíði, lógresi og sauðvingul. Inn við jökulröndina má m.a. finna tegundir eins og fjalladúnurt, eyrarós og þúfusteinbrjót.

Um áratugaskeið skipulagði skátafélagið Einherjar á Ísafirði gönguferðir á skíðum upp á Drangajökul um hvítasunnuna. Stundum var tjaldað og byggt snjóhús við Hrolleifsborg, til að gista yfir nótt. Ýmist var þá gengið upp úr Skjaldfannardal, Kaldalóni, upp Bæjafjall eða upp úr Leirufirði.

Í gönguferðinni á laugardaginn verður farið yfir öll helstu örnefni á svæðinu og rifjaðar upp ýmsar þjóðsögur þ.á.m. Hrolleifsþátt Drangajökulsdraugs, ævafornar sagnir um örnefnið Hrolleifsborg og tröllkonuna í Votubjörgum. Einnig verður sagt frá því hvernig Hávarðarsaga Ísfirðings kemur við sögu á svæðinu en i henni segir frá því er Þorbjörn Þjóðreksson vegur Ólaf Hávarðsson á Lónseyri. Þá hvarf Sigríður bústýra Þorbjarnar og heitkona Ólafs og spunnust ýmsar sögur um hana sem tengjast Kaldalóni.

Lárus Þórðarson vitnar í söguna í síðustu vísu kvæðisins Við Kaldalón en hún hljóðar svo:

Fyrrum hér við dula drafnar braut

drenginn snjalla syrgði mærin fríða.

Lóns- við eyri eins í sæld og þraut

ennþá lifir minning fornra tíða.

Ennþá svanir innst við jökulskaut

ástarklökkir hefja róminn blíða.

Hávarðarsaga Ísfirðings er reyndar ekki eina Íslendingasagan sem sagt verður frá því að bókin Alltaf skröltir rokkurinn hjá Bjarna má svo sannarlega teljast til Íslendingasagna nútímans.  Í bókinni rekur Bjarni Guðmundsson frá Lónseyri minningar sínar allt frá barnæsku til fullorðinsára.

Í manntalinu 1703 eru taldir 11 til heimilis á Lónseyri í Kaldalóni. Meðal þeirra sem skráðir eru til heimilis á Lónseyri árið 1703 er Margrét Þórðardóttir, ekkja séra Tómasar Þórðarsonar, Snæfjallaklerks, er kölluð var Galdra-Manga og Möngufoss utar á Ströndinni er kenndur við. Margrét var af vottum svarin saklaus af göldrum á Alþingi árið 1662.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem lokið er við 1709, er sagt: „Þessi jörð hefur legið í auðn síðan bóluna“ Og: „Þessa jörð brúkar nú enginn nje hefur brúkað í næstu 2 ár.“ Ljóst er því að stóra-bóla hefur grandað heimilisfólki á Lónseyri og lagt jörðina í eyði í upphafi 18.aldar. Í landi Lónseyrar, innar í Kaldalóni, er fornt eyðiból er kallast Lónhóll. Þar hafa Lónseyrarbændur haft grasnytjar.

Guðmundur Engilbertsson og Sigríður Jensdóttir bjuggu á Lónseyri upp úr 1930. Þá var byggt á Lónseyri steinhús með kjallara, hæð og risi og bárujárnsþaki. Jens, sonur þeirra sem kenndi sig við Kaldalón, tók um það leyti við búsforráðum og stóð fyrir því að byggja steinhúsið sem enn stendur. Lónseyri fór í eyði 1950 þegar Jens og Guðmunda Helgadóttir fluttu í Hærribæ í Bæjum. Steinhúsið á Lónseyri hefur nú verið gert upp. Ólafía og Engilbert, börn þeirra Guðmundar og Sigríðar, bjuggu á Hallsstöðum á Langadalsströnd frá 1945 – 1995. Systkinin voru þekkt að manngæsku og umhyggju fyrir börnum, ólu upp þrjá drengi en auk þess dvaldi hjá þeim um lengri og skemmri tíma fjöldi barna og unglinga.

Bjarni Guðmundsson frá Lónseyri hefur sagt frá því er tröllskessa ásótti sláttumenn á Lónseyri um eða fyrir miðja 19. öld. Skessan var í skinnstakk og með trog undir hendinni. Hún staðnæmdist er hún sá sláttumennina, en þreif svo tvo hrúta og slengdi þeim yfir öxl sér. Sögn er til um helli í Háafelli og annan í Votubjörgum þar sem fnyk lagði út og talið var að tröllskessan byggi.

Gönguferðinni lýkur með viðkomu í Dalbæ og Steinshúsi áður en haldið er heim á leið.

Heimildir: Árbók Ferðafélags Íslands 2017, Ólína Þorvarðardóttir og Horfin býli og huldar vættir í Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppum hinum fornu, Ólafur J. Engilbertsson tók saman