Bolungavík: þreföld aðsókn á tjaldsvæðið

Tjaldsvæðið í Bolungavík. Mynd: Finnbogi Bjarnason.

Síðustu daga hefur þrefaldast aðsóknin á tjaldsvæðið í Bolungavík og eru um 60 tjöld og vagnar á dag á svæðinu. Á miðvikudaginn voru þau rúmlega 100 á tjaldsvæðinu og 600 gestir komu í sundlaugina.

Þjónustuaðilar í Bolungavík eru að leitast við að bregðast við aukningunni og auka þjónustuna. Þannig hefði Einarshúsið opnað kaffihús i Félagsheimilinu og unnið er að því að stækka tjaldsvæðið.

Magnús Már Jakobsson, forstöðumaður íþróttamiðstöðvarinnar segir allt sprungið. Frá mánaðamótun hafa verið um 30 vagnar og tjöld á dag á svæðinu sem hefur svo þrefaldast síðustu daga.

Magnús Már segir að þjónustuhúsið sé mikið notað, en þar er þvottaaðstaða og hægt að fara í sturtu. Þá sé gufubaðið mjög vinsælt. Magnús Már segir það vinsælasta gufubaðið á landinu, gestir gefi því góða einkunn fyrir bæði gufuna og hvíldarherbergin. Hann segist ánægður með gestina sem gista á svæðinu og umgengnin sé góð.

Magnús Már Jakobsson.

Það stefnir í fleiri ferðamenn í ár en voru í fyrra, en þá voru þeir tvöfalt fleiri en sumarið 2019, síðasta sumar fyrir covid19.

Magnús Már Jakobsson var inntur eftir því hvað hann teldi að valdi þesari aukningu. Hann nefndi fyrst almenna jákvæða umfjöllun um Vestfirði, síðan hefði nýi útsýnispallurinn á Bolafjalli veruleg áhrif þótt hann sé ekki fullbúinn. Loks sagði Magnús Már að undanfarin ár hefði verið lögð mikil áhersla á að tala við gesti og fara yfir þjónustuna.

Ljóst væri, að mati Magnúsar Más, að bæjaryfirvöld þurfa að endurmeta uppbyggingu aðstöðu fyrir ferðamenn til lengri tíma litið.

Horft yfir tjaldsvæðið við íþróttamiðstöðina Árbæ í Bolungavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA