Bergþór Ólason: ráðherrann kominn út í móa með hugmyndum um gjaldtöku af umferð í jarðgöngum

Bergþór Ólason, alþm. Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi segir að Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra sé kominn út í móa með hugmyndum sínum um gjaldtöku af umferð í þegar byggðum jarðgöngum.

Í samþykktri samgönguáætlun, sem Samgönguráðherra lagði fyrir Alþingi kemur fram að gert er ráð fyrir að bein framlög af samgönguáætlun og jarðgangaáætlun standi undir helmingi framkvæmdakostnaðar jarðganga. Ennfremur kemur fram að stefnt er að gjaldtöku af umferð í jarðgöngum á Íslandi og að sú innheimta fjármagni rekstur og viðhald ganganna, sem og að standa undir því sem uppá vantar í framkvæmdakostnað.

Ekkert um gjaldtöku af þegar gerðum jarðgöngum

Bergþór var inntur eftir afstöðu hans til áforma um gjaldtöku samanber að sem fram kemur í samgöguáætluninni.

„Sá texti langtímaáætlunar samgönguáætlunar, sem vísað er til í spurningunni, fjallar á engan hátt um að gjald verði tekið af þeim göngum sem þegar hafa verið byggð. Ráðherrann vék ekki að þessu heldur á neinum tímapunkti við afgreiðslu samgönguáætlunarinnar á sínum tíma við meðferð þingsins en þá gegndi ég formennsku í umhverfis og samgöngunefnd og hefði viðhaft skýr mótmæli í ræðu og riti en eins og sjá má á skorinyrtu nefndaráliti Miðflokksins þá var þetta ekki á borðinu. (sjá hér: https://www.althingi.is/altext/150/s/1687.html)“

Bergþór segir að sérstök veggjöld, fyrir notkun, geti átt rétt á sér og jafnvel verið skynsamleg ef ætlunin er að ná hærra hlutfalli tekna af umferð frá svokölluðum „einskiptisnotendum“ það er þeim sem nota vegina sjaldan, til dæmis erlendir ferðamenn og þeir af SV horninu sem sjaldan sækja fjærsvæðin heim, en

„Áform ráðherra um að innleiða veggjöld með þeim hætti sem ráðherrann leggur nú til stranda strax á hans eigin orðum um að ekki sé réttlætanlegt að leggja á veggjöld þar sem vegfarendum stendur ekki annar kostur til boða. Nema hann ætli að halda Óshlíðinni opinni og þeim vegum sem Vestfjarðagöngin leistu af hólmi á sínum tíma. Slík umræða hefur í öllu falli ekki farið fram innan þingsins.“

Vanfjármögnun ríkisins vandinn

„Tilefni þess að ráðherrann viðrar þessar hugmyndir nú gæti verið hin alvarlega vanfjármögnun sem blasir við gagnvart jarðgöngunum fyrir austan. Í því samhengi hefur mér þótt ráðherrann draga Austfirðinga á asnaeyrunum, en kannski enn frekar önnur landsvæði sem þarfnast jarðganga, í ljósi þess að kostnaðaráætlun Fjarðarheiðarganga er 44-47 milljarðar, en aðeins 17 milljarðar áætlaðir til verksins innan 15 ára samgönguáætlunar og 25 milljarðar í heildina til jarðgangagerðar næstu 15 árin. Þegar horft er til þeirra upphæða sem ríkisstjórnin hefur áætlað til jarðanga til næstu 15 ára í fjármálaáætlun blasir við að það er ekki feitan gölt að flá gagnvart jarðgangagerð á Vestfjörðum, jafn æpandi og þörfin er fyrir Súðavíkurgöng, göng um Mikladal og undir Hálfdán, svo dæmi séu tekin.

Það er ekki fallega gert að draga heilu landsfjórðungana á asnaeyrunum, sérstaklega ekki með jafn mikilvæg mál fyrir fólkið sem þar býr og þeirra lífsgæði.“

Þarf nýtt gjaldtökukerfi fyrir vegakerfið

Bergþór segist áður hafa gagnrýnt ráðherrann og í raun ríkisstjórnina fyrir seingang við að forma og kynna hugmyndir að nýju gjaldtökukerfi fyrir notkun á vegakerfinu og segir það blasir við að innleiða þarf nýja nálgun í ljósi lækkandi hlutfalls bensín og díselbíla á vegum landsins.

„Það er ekki boðlegt hjá innviðaráðherra að reyna nú að troða nýjum hugmyndum um aukna heildargjaldtöku fyrir notkun á vegum landsins um kok landsmanna með salami-aðferðinni, það er með einni þunnri salamisneið í einu, í stað þess að draga upp heildstæða mynd.“

DEILA