Aðalvík: árlegri vinnuferð Átthagafélags Sléttuhrepps lokið

Frá árinu 2008 hafa Átthagafélög Sléttuhrepps í Reykjavík og á Ísafirði efnt til árlegra vinnuferða til Aðalvíkur. Fyrst var viðfangsefnið umfangsmiklar endurbætur á kirkjunni að Stað. Ástand hennar var orðið slæmt og hún raunar orðin laus á hleðslugrunni. Óttast var að kirkjan myndi fjúka af grunninum í óveðri. Þessum endurbótum lauk árið 2010.
 
Frá árinu 2011 hefur vinnan beinst að prestsbústaðnum að Stað en hann var byggður árið 1907. Þótt bústaðnum hafi verið haldið við á árum áður var fyrir löngu kominn tími á gagngerar endurbætur á honum innra sem ytra. Segja má að endurbótum innanhúss hafi lokið sumarið 2021. Með vinnuferð sumarsins var hafist handa við ytra byrðið. Í þessum fyrsta áfanga, sem stóð frá 15. - 22. júlí 2022, var skipt um glugga og bárujárn á suður hlið bústaðarins. Á næsta sumri verða aðrar hliðar teknar fyrir með sama hætti. 
 
Endurbæturnar eru kostaðar af Átthagafélögunum en einnig hefur fengist styrkur frá Húsfriðunarsjóði og Minningarsjóði Staðarkirkju. Sjálfboðaliðar, félagar í Átthagafélögunum, hafa tekið þátt í vinnuferðunum. Ferð ársins eins og margar fyrri vinnuferðir laut stjórn Ingibjargar Reynisdóttur, Ingu smiðs. Aðrir þátttakendur voru Bergsteinn Gunnarsson, Hilmar Sölvason, Jónína Vala Kristinsdóttir, feðgarnir Stefán Betúelsson og Sindri Stefánsson auk undirritaðs. Jón Heimir Hreinsson á Ísafirði var lykilmaður varðandi aðdrætti.
 
Texti og myndir: Gylfi Kristinsson.
Staður í Aðalvík.
Presthúsið að Stað.

 




 




DEILA