Yfirvélstjórinn á Páli Pálssyni hlaut Neistann 2022

Á hátíðarhöldum sjómannadagsins undanfarin ár hefur yfirvélstjóra skips verið veitt viðurkenning fyrir fyrirmyndar rekstur vélbúnaðar og umgengni um borð í viðkomandi skipi.

Nefnist verðlaunagripurinn Neistinn og kom að þessu sinni í hlut Sigurðar Jóhanns Erlingssonar yfirvélstjóra á Páli Pálssyni ÍS 102. 

Við val á viðtakanda er m.a. lagt til grundvallar ástand skoðunarskylds vélbúnaðar um borð, ástand öryggis- og viðvörunarbúnaðar, rekstur á vélbúnaði skipsins og umgengni í vélarrúmum. 

Leitað er umsagnar skoðunarstofa, flokkunarfélaga og TM, en á milli 80 og 90% af öllum skoðunarskyldum búnaði um borð er á ábyrgðarsviði yfirvélstjórans. Yfirvélstjórinn er einnig sá eini í áhöfninni sem getur fengið heimild flokkunarfélaga til þess að ljúka fullnaðarskoðun á tilgreindum skipsbúnaði án þess að kvaddur sé til fulltrúi frá flokkunarfélagi.

Tilgangur viðurkenningarinnar er að vekja athygli á hversu þýðingarmikið og krefjandi starf yfirvélstjórans er og um leið að veita þeim sem skara fram úr viðurkenninguna á sjómannadegi ár hvert. 

Sigurður hefur verið vélstjóri hjá HG í 16 ár og þar af yfirvélstjóri á Páli síðastliðin 4 ár. 

Þess má einnig geta að þetta er í annað sinn sem vélstjóri hjá HG hlýtur viðurkenninguna en árið 2011 hlaut Hilmar Kristjánsson Lyngmo þessa viðurkenningu. 

DEILA