Vesturbyggð: viljayfirlýsingin um laxasláturhús hefur ekki verið birt

Ráðhús Vesturbyggðar.

Enn hefur ekki fengist birt viljayfirlýsing milli Vesturbyggðar og Arnarlax, sem bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti 11. maí. Yfirlýsingin er hvorki birt í fundargerð bæjarstjórnar né er fylgiskjal með henni og því er ógerningur fyrir almenning að kynna sér textann sem bæjarstjórnin samþykkti.

Yfirlýsingunni er svo lýst í fundargerð:

„Samkvæmt viljayfirlýsingunni áformar Arnarlax að byggja sláturhús á lóð á Vatneyri en gert er ráð fyrir að Straumnes (Kaldbakur) og móttökusvæði fyrir úrgang víki af lóðinni. Þá er gert ráð fyrir uppsetningu biðkvía og framtíðaruppbyggingu stórkipakannts við Patrekshöfn. Áætlað er að sláturhúsið sjálft verði um 9.500 m2 og þar verði til framtíðar unnt að slátra allt að 80.000 tonnum af eldisfiski. Þá er í yfirlýsingunni mælt fyrir um gerð langtímasamnings um aflagjöld og samkomulag um ógreidd aflagjöld.“

Bæjarins besta hefur ítrekað óskað eftir því að fá viljayfirlýsinguna en án árangurs. Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri vísaði á Arnarlax í svari sínu og segir að fyrirtækið hafi „enn ekki svarað sveitarfélaginu hvort og þá hvaða upplýsingar í yfirlýsingunni snerta viðskiptahagsmuni fyrirtækisins og sveitarfélaginu er óheimilt að veita aðgang að.“

DEILA