UMHVERFISVERÐLAUN FERÐAMÁLASTOFU 2021 – Afhending í Raggagarði 14. júní

Þann 16. desember síðastliðinn, var Raggagarði tilkynnt að hann hafi fengið þann heiður að fá Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu.

Þann 14. júní Kl: 15.00 koma fulltrúar Ferðamálastofu og afhenda verðlaunagripinn í Raggagarði (Boggutúni).

Verðlaunagripurinn ber heitið ,,Sjónarhóll“ og eru höfundar hans Jón Helgi Hólmgeirsson og Védís Pálsdóttir. Hugmyndin bakvið gripinn er hvernig hægt er að upplifa náttúruna frá mismunandi sjónarhornum og þá einstöku upplifun hvers og eins að nálgast áfangastað.

Látúnstangir mynda þrívíðan hól úr uppréttum hæðarlínum. Línuteikningar bæta við hólinn hlíðum og árfarvegum. Hóllinn varpast í speglum sem myndar nýjar víddir eftir því hvaðan á er litið. Sjónarhóll er í senn náttúran, samspilið við hið manngerða og sjónarhornið sem upphefur upplifunina.

Vilborg Arnarsdóttir (Bogga í Súðavík) fór af stað með uppbyggingu Raggagarðs til minningar um son sinn Ragnar Frey Vestfjörð, sem að lést í bílslysi árið 2001, þá aðeins 17 ára gamall.

Markmiðið með garðinum er að hlúa að fjölskyldum, efla útiveru og hreyfingu og stuðla um leið að ánægjulegri samveru foreldra og barna, einnig að styrkja uppbyggingu Súðavíkur sem ferðamannabæjar og efla afþreyingu fyrir ferðamenn á Vestfjörðum.

Súðavíkurhreppur lagði til lóðina en heimamenn, sumarbúar, gestir og fjöldi velunnara garðsins á öllum aldri ásamt styrktaraðilum hafa látið þennan draum rætast.

DEILA