Rammaáætlun: stjórnarandstaðan styður ekki Hvalárvirkjun

Alþingi samþykkti í síðustu viku Rammaaætlun, það er áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, eftir margra ára þóf. Tveir virkjunarkostir í nýtingarflokk voru samþykktir á Vestfjörðum, Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun. Hvalárvirkjun var samþykktur virkjunarkostur í fyrri samþykktum Rammaáætlunar og breyttist það ekki við afgreiðsluna nú. Austurgilsvirkjun í Skjaldfannardal er ný virkjunarkostur samþykkt í nýtingarflokk.

Við athugun á því hvernig afstaða flokkanna til virkjunarkostanna á Vestfjörðum var kemur í ljós að þingmenn stjórnarflokkanna þriggja Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna greiddu atkvæði með þeim í nýtingarflokk að frátöldum þó Bjarna Jónssyni, Vinstri grænum, sem greiddi atkvæði gegn.

Enginn þingmaður stjórnarandstöðunnar studdi Hvalárvirkjun eða Austurgilsvirkjun í nýtingarflokk. Þegar greidd voru atkvæði um skiptingu virkjunarkostanna í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk greiddu 12 þingmenn stjórnarandstöðunnar atkvæði gegn tillögunni. Það voru allir þingmenn Samfylkingarinnar og Pirata. Þrettándi þingmaðurinn sem greiddi atkvæði gegn tillögunni var stjórnarþingmaðurinn Bjarni Jónsson. Níu þingmenn Flokks fólksins og Viðreisnar sátu hjá.

Borin var fram sérstök breytingartillaga um að færa Hvalárvirkjun og Hvammsvirkjun á Suðurlandi úr nýtingarflokki i biðflokk. Sú tillaga var felld en fékk 17 atkvæði frá stjórnarandstöðunni. Það voru allir þingmenn Pírata, fjórir þingmenn Samfylkingarinnar, fjórir þingmenn Viðreisnar og þrír þingmenn Flokks fólksins sem sögðu já við tillögunni. Fjórir þingmenn sátu hjá, tveir frá samfylkingunni, einn Viðreisnarþingmaður og svo stjórnarliðinn Bjarni Jónsson.

Einn þingmaður stjórnarandstöðunnar lýsti stuðningi við Rammaáætlunina sem samþykkt var og þar með stuðningi við Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun. Það var Jakob Frímann Magnússon, Flokki fólksins sem lét koma fram í nefndaráliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar að hann væri sammála áliti meirihlutans. Hann og tveir aðrir þingmenn Flokks fólksins voru hins vegar fjarverandi við atkvæðagreiðslu málsins.

DEILA