Magnus Gertten heiðursgestur á Skjaldborgarhátíðinni

Skjald­borg – hátíð íslenskra heim­ilda­mynda verður haldin um hvíta­sunnu­helgina á Patreks­firði dagana 3. – 6. júní 2022. 

Heiðursgestur hátíðarinnar í ár er Magnus Gertten en hann er margverðlaunaður heimildamyndagerðarmaður frá Svíþjóð.

Hann hlaut Teddy verðlaunin á Berlinale fyrr á þessu ári fyrir heimildamyndina Nelly & Nadine sem verður jafnframt opnunarmynd Skjaldborgar í ár. Nelly & Nadine er ástarsaga tveggja kvenna sem felldu hugi á aðfangadag árið 1944 í Ravensbrück útrýmingarbúðunum. Þrátt fyrir aðskilnað síðustu mánuði seinni heimsstyrjaldarinnar náðu þær saman á ný og vörðu ævikvöldinu saman.

Í verkinu afhjúpar dótturdóttir Nelly hina ótrúlegu og ósögðu sögu ástkvennanna sem nær yfir heimshöfin og samfélagsleg norm þess tíma.

Einnig verður sýnd myndin Every Face has a Name í leikstjórn Gerttens sem byggir á dýrmætu sögulegu efni. Every Face Has a Name er mynd um mennskuna og marglaga merkingu frelsisins. Þann 28. apríl 1945 stigu hátt í tvö þúsund manns á land í Malmö eftir dvöl í útrýmingarbúðum nasista.

Fest var á filmu þegar skipin lögðu að höfn og fólkið steig á land í nýfundið frelsið. Í verkinu leggur Magnus Gertten upp í þá vegferð að finna fólkið á myndunum, ljá þeim rödd og tengja við persónu nafnlausra andlitanna.

DEILA