Könnun: borgarbúum líst illa á nýja meirihlutann í Reykjavík

Samkvæmt könnun Maskínu, sem unnin var í síðustu viku, leist 39,6% kjósenda illa á meirihlutaviðræðurnar sem þá stóðu yfir. Þrjátíu og sjö prósent leist vel á mögulegt borgarstjórnarsamstarf og 23,4% leist í meðallagi vel á.

Greinilegur munur var á afstöðu kjósenda eftir búsetu innan borgarinnar. Í miðborginni og Vesturbæ leist 47% vel á en austan Elliðaáa var stuðningurinn aðeins 28%. Einnig var mikill munur á svörum eftir því hvort svarandinn kaus einn af flokkunum fjórum sem verða í meirihluta eða einhvern minnihlutaflokkinn. 56,7% kjósenda meirihlutaflokkanna leist vel á en aðeins 11,8% kjósenda minnihlutaflokkanna.

52,5% vilja Einar sem borgarstjóra

Einnig var spurt um hvern af oddvitum flokkanna fjögurra svarandinn vildi helst sem borgarstjóra. Þar fékk Einar Þorsteinsson, Framsókn langmestan stuðning eða 52,5%. Dagur B. Eggertsson fékk 23,3%, Dóra Björt Guðjónsdóttir 18,3% og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir 5,9%.

Meðl kjósenda í miðbænum og Vesturbæ hafði Dagur B. betur gegn Einari með 37,7% þar sem Einar fékk 34,2%. Hins vegar hafði Einar yfirburði gegn Degi austan Ellíðáa með 62% gegn 9,9%.

Loks var spurt hvern af oddvitunum menn vildu síst hafa sem borgarstjóra. Þar fékk Dagur B. 49,5% og Einar varð næstur með 19,1%.

DEILA