Ísafjörður: ekki boðið í siglingu á sjómannadaginn

Frá Ísafjarðarhöfn á sjómannadaginn. Mynd: verkvest.is.

Bergvin Eyþórsson, varaformaður Vekalýðsfélags Vestfirðinga vekur athygli á því í pistli á vefsíðu félagsins að á Ísafirði, þar sem sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur á landinu 1938, hafi útgerðarmenn ekki boðið til siglingar í ár. Það hafi á Vestfjörðum tíðkast í hálfa öld  að útgerðarmenn, burðarstólpar samfélagsins, hafi boðið bæjarbúum í skemmtisiglingu á Sjómannadag (að undanskildum Covid-árunum tveimur), en sjómenn hafi alla tíð gefið vinnu sína við að gera skipin tilbúin til að taka móti farþegum og vinnu sína við siglinguna. 

„Nú á því herrans ári 2022 hafa hins vegar orðið þau tímamót að ekki var boðið til siglingar á Ísafirði. Ísfirðingar og ísfirskar útgerðir voru í fararbroddi þegar þessari hátíð til heiðurs sjómönnum var komið á. Vonandi verða Ísfirðingar og ísfirskar útgerðir ekki í fararbroddi við að jarðsyngja þessa hátíð á landsvísu.“

Bergvin veltir því fyrir sér að breyttur tíðarandi eigi hér hlut að máli. Nú sé mjög horft til þess að auðgast og græðgin skipi hærri sess en áður, þá hafi sjómönnum fækkað m.a. í áhöfn og hún sé dauð þreytt þegar í land sé komið. Þeir sem áður sameinuðu kafta sína til þess að gera daginn hátíðlegan eru nú orðnir neytendur.

Undantekningu sér Bergvin þó á þessari þróun:

„Í smærri sjávarþorpum þar sem mikil smábátaútgerð er við lýði á þetta hins vegar ekki við. Þar virðist gamla hugsunin enn vera í fullu gildi, þar er enn kúl að vera sjómaður.“

Verkvest / Fréttir / Sjómannadagurinn í kjölfar Covid

DEILA