Ísafjarðarbær: 10 m.kr. í laun til áheyrnarfulltrúa í bæjarráði

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti í gær að greiða áheyrnarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði laun fyrir setu á fundum bæjarráðsins. Kostnaður er talinn verða 1.260 þúsund krónur fram til áramóta eða fyrir liðlega hálft ár.

Það var fulltrúi Framsóknarflokksins, Kristján Þór Kristjánsson, sem bar fram tillöguna. Hann upplýsti að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hefðu samanlagt eitt sæti í bæjarráði og að þeir skipti því milli sín þannig að þeir skiptist á um að tilnefna í bæjarráðið, ár í senn. Sá flokkur sem ekki fær sæti sækir um og fær áheyrnarfulltrúa.

Kostnaður við samþykktina mun því verða um 2,5 m.kr. á ári eða um 10 milljónir króna fyrir kjörtímabilið sem var að hefjast.

Í minnisblaði  sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs kemur fram að haft hefur verið samband við önnur sveitarfélög og spurst fyrir um hvernig málum væri háttað þar. Sjö sveitarfélög hafa svarað (Múlaþing, Hafnarfjörður, Vesturbyggð, Dalvíkurbyggð, Hornafjörður, Akureyri og Fjarðabyggð). Öll greiða þau áheyrnafulltrúum fyrir nefndafundi, sömu fjárhæð og aðalmenn í viðkomandi nefnd, utan eins sem greiðir hálf nefndarlaun miðað við aðalfulltrúa.

DEILA