Háskólahátíð og brautskráning á Hrafnseyri

Útskriftarnemar ásamt Oddi Þór Vilhelmssyni, sviðsforseta, Þorsteini Gunnarssyni f.v. rektor HA og Peter Weiss forstöðumanni Háskólaseturs. Ljósmynd: Melanie Stock.

Þann 17. júní síðastliðinn stóð Háskólasetur Vestfjarða fyrir Háskólahátíð á Hrafnseyri í tengslum við þjóðhátíðardagskrá Safns Jóns Sigurðssonar.

Háskólahátíðin hefur nú verið haldin á þessum degi á Hrafnseyri allt frá árinu 2009 þegar fyrstu nemendurnir brautskráðust úr meistranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun.

Alls brautskráðust ellefu nemendur að þessu sinni, tíu úr Haf- og strandsvæðastjórnun og einn úr Sjávarbyggðafræði. Undir lok síðasta háskólaárs, í október, brautskráðust einnig fimm nemendur, einn úr Sjávarbyggðafræði og fjórir úr Haf- og strandsvæðastjórnun og gafst þeim einnig tækifæri til að taka þátt í hátíðinni. Þá er einnig hefð fyrir því að fjarnemar sem brautskrást taki þátt í athöfninni auk nemenda fyrri útskriftarárganga Háskólaseturs sem fá þá við þetta tilefni sína útskriftarhúfu og birkihríslu til gróðursetningar. Í ár var engin undanteking á þessu.

Í fyrsta sinn frá árinu 2009 gat rektor HA ekki tekið þátt í athöfninni. Það kom þó ekki að sök því í hans stað kom prófessor Oddur Þór Vilhelmsson, forseti Viðskipta- og raunvísindasviðs HA og afhenti kandídötunum skírteini sín. Í hátíðarræðu sinni kom Oddur Þór inn á langt og farsælt samstarf Háskólasetursins og Háskólans á Akureyri. Oddur Þór rakti söguna allt til ársins 1997 þegar Þorsteinn Gunnarsson, þáverandi rektor HA sem einmitt var viðstaddur athöfnina í ár, fjallaði um þau tækifæri sem liggja í háskólastarfi á Vestfjörðum á ársfundi Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. Þar var fræi sáð sem síðar óx úr frjóum jarðvegi Háskólaseturs Vestfjarða.

Peter Weiss forstöðumaður flutti einnig hátíðarræðu og beindi orðum sínum sérstaklega að stúdentum á þessum stóra degi: „Þið haldið á ykkar prófskírteini, sem skráir samviskusamlega hæfniviðmiðin – en þegir þó um eflingu persónuleika. Það sem er mesta veganesti er erfiðast að meta, að mæla, að skrásetja, og það er jafnvel það sem við sjalf verðum minnst vör við, nema eftirá“, sagði Peter undir lok ræðu sinnar.

Það var svo sérstaklega viðeigandi að hátíðarræðu þjóðhátíðardagskrár Hrafnseyrar hélt Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs. Í námi sínu við Háskólasetrið fást nemendur einmitt mikið við þær náttúrufarslegu og félagslegu áskoranir sem loftslagsváin veldur.

Að lokinni formlegri dagskrá hélt hópurinn svo út á tröppur í myndatöku og að lokum var haldið út í lund austan við Hrafnseyrarbæinn þar sem hver og einn útskriftarnemi plantaði birkihríslu. Þar hefur nú myndast myndarlegur lundur enda bætast árlega við tugir plantna sem munu vaxa og dafna í framtíðinni rétt eins og kandídatarnir.

DEILA