Þjóðskrá hefur birt upplýsingar um fasteignamat sem gildir fyrir næsta ár 2023. Er það byggt á gögnum frá febrúar 2022. Matið hækkar um 19,9% yfir landið allt. Mest er hækkunin 22,4% á Suðurlandi. Næst 20,2% á höfuðborgarsvæðinu og svo Vestfirðir með 19,3% hækkun. Minnst er hækkunin 14,9% á Austurlandi.
25,3% hækkun í Bolungavík
Á Vestfjörðum verður mest hækkun í Bolungavík, en þar hækkar fasteignamatið um 25,3%. Er það fimmta mesta hækkunin í sveitarfélögum landsins. Mest er hækkunin í Hveragerði 32,3%, Árborg 32,1%, Skorradalshreppi 29,3% og Grýtbakkahreppur er í fjórða sæti með 25,5% hækkun.
Tálknafjörður er með næst mestu hækkun fasteignamatsins á Vestfjörðum 23,8%. Vesturbyggð er þar næst með 20,5% hækkun. Minnst er hækkunin í sveitarfélögunum í Strandasýslu. Þar er hækkunin 14-15%.
Á Vestfjörðum eru 6.537 eignir í fasteignamati og verður mat þeirra 116,4 milljarðar króna. Hækkar matið úr 97,6 milljörðum króna eða um tæpa 20 milljarða króna milli ára.
Heildarmat allra eigna á landinu verður 12.627 milljarðar króna og hækkar það um 1.900 milljarða króna milli ára. Þar af er hækkunin á höfuðborgarsvæðinu einu 1.500 milljarðar króna. Á Suðurlandi hækkar matið um 200 milljarða króna og um 100 milljarða króna á Suðurnesjum. Hækkunin á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi eystra og vestra og Austurlandi er samtals um 100 milljarðar króna.