Bíldudalur: ofanflóðavörnum verði hraðað

Mynd úr skýrslu Náttúrustofu Vestfjarða um matsskyldu framkvæmdarinnar.

Bæjarráð Vesturbyggðar hefur formlega óskað eftir því við ofanflóðanefnd að hafin verði vinna við hönnun ofanflóðavarna á Bíldudal sem allra fyrst. Þá verði framkvæmdinni tryggt nægt fjármagn sem fyrst til að flýta megi framkvæmdum til að tryggja fullnægjandi öryggi fyrir íbúa á Bíldudal gegn ofanflóðum í samræmi við fjármálaáætlun ríkisins sem gerir ráð fyrir að uppbyggingu varnarmannvirkja verði lokið árið 2030.

Skipulagsstofnun ákvað í lok maí að ofanflóðavarnir við Stekkjargil og milligil á Bíldudal skyldu ekki þurfa að fara í umhverfismat. Er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Fyrirhuguð framkvæmd felst í gerð ofanflóðavarna fyrir ofan þéttbýlið á Bíldudal. Reistur verður 8-14 m hár og 990 m þvergarður ofan byggðarinnar en neðan Stekkjar-, Klofa-, Merki- og Innstagils (þrjú síðastnefndu gilin kallast einu nafni Milligil). Jafnframt verða reistar þrjár 4,5 m háar keilur neðan Stekkjargils. Einnig verður reistur um 8 m hár og 45 m langur þverveggur ofan Grunnskóla Bíldudals. Gert er ráð fyrir að framkvæmdirnar muni taka u.þ.b. 3 ár en upphaf og framvinda ræðst af fjárframlögum til verkefnisins.

Hafsteinn Pálsson sérfræðingur hjá Ofanflóðasjóði segir að þessar varnir hafi ekki verið hannaðar og áætlanir um kostnað séu því í grófari kantinum. Miðað er við að framkvæmdakostnaður komi til með að liggja á bilinu 1200 til 1400 milljónir króna.

DEILA