Arna Lára tekin til starfa sem bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar

Bryndís Ósk og Arna Lára við lyklaskiptin

Nýr bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Arna Lára Jónsdóttir, hefur tekið til starfa. Bryndís Ósk Jónsdóttir, staðgengill bæjarstjóra afhenti henni lyklana að skrifstofu bæjarstjóra að loknum fyrsta fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar sem haldinn var fimmtudaginn 2. júní. 

Arna Lára skipaði 5. sæti Í-listans í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum og var jafnframt bæjarstjórnarefni listans. Hún er með BSc-gráðu í stjórnmálafræði og meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði. Arna hefur verið bæjarfulltrúi Í-listans í Ísafjarðarbæ síðan 2006 og á þeim tíma hefur hún lengi setið í bæjarráði, meðal annars sem formaður þess 2014–18. Þá hefur hún gegnt ýmsum trúnaðarstörfum, þ.á.m. í verkefnisstjórn Allra vatna til Dýrafjarðar.

Arna Lára situr í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga og fjárfestingafélagsins Hvetjanda. Hún hefur tekið sæti á Alþingi sem varaþingmaður Samfylkingar, fyrst árið 2010.

Arna Lára hóf starfsferilinn í Íshúsfélagi Ísfirðinga, vann í fiskibúðinni, Brúarnesti, bíóinu og upplýsingamiðstöð ferðamála svo eitthvað sé nefnt. Lengst af hefur Arna Lára starfað að nýsköpunar- og byggðaþróunarmálum, fyrst hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og svo í þrettán ár sem verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands á Ísafirði en síðasta rúma árið hefur hún starfað sem svæðisstjóri Eimskips á Vestfjörðum.

Arna Lára er í sambúð með Inga Birni Guðnasyni verkefnastjóra hjá Háskólasetri Vestfjarða og á þrjú börn.

DEILA