Alvarleg staða sauðfjárbúskapar

Dregin er upp dökk mynd af stöðu sauðfjárræktar á Íslandi í nýrri skýrslu Byggðastofnunar.

Að mati Byggðastofnunar stefnir í að rekstrarniðurstaða meðalsauðfjárbúsins, sem hlutfall af tekjum, verði neikvæð um allt að 50% og að rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnstekjur og afskriftir verði neikvæð um 25%.

Miðað við stöðu mála væri því líklegt að einhverjir sauðfjárbændur hætti búskap haustið 2022.

Þeir sauðfjárbændur, sem muni halda áfram geri það í þeirri von að rekstraraðstæður batni. Gerist það ekki megi búast við því að fjölmargir sauðfjárbændur hætti búskap haustið 2023.

Byggðastofnun telur það hafa fjölþætt neikvæð byggðaleg áhrif hætti fólk sauðfjárbúskap.

Það geti haft margfeldisáhrif á ákveðnum svæðum, þar sem leitir og önnur sameiginleg verkefni sauðfjárbænda verða þeim sem eftir sitja ofviða.

Byggðastofnun nefnir sem dæmi um viðkvæm svæði Reykhólahrepp, Dali, Strandir, Húnavatnssýslur og norðausturhorn landsins.

DEILA