Vesturbyggð: miklar framkvæmdir – lækkandi skuldir

Frá Patreksfirði.

Ársreikningur fyrir 2021 fyrir Vesturbyggð hefur verið birtur og mun bæjarstjórn afgreiða hann á fundi á morgun. Miklar framkvæmdir eru einkennandi fyrir árið. Unnið var að Ofanflóðaframkvæmdum fyrir 614 m.kr. og hafnarframkvæmdir voru fyrir 254 m.kr. Hlutur ríkisins í þessum framkvæmdum er mikill, 90% af Ofanflóðaframkvæmdunum og 165m.kr. af hafnarframkvæmdunum. Fyrir utan þessar framkvæmdir voru gatnaframkvæmdir fyrir 44 m.kr. þær sem næst komu. Alls kemur fram í ársreikningnum að framkvæmdir hins opinbera hafi verið nærri 1 milljarður króna á síðasta ári.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 1.765 millj. kr. samkvæmt ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 1.425 millj. kr. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt ársreikningi A og B hluta var jákvæð um 85 millj. kr. en í A hluta var rekstrarniðurstaðan neikvæð um 46 millj. kr.

„Niðurstaða ársreiknings 2021 er mun betri en við gerðum ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins, þar sem gert var ráð fyrir rúmlega 110 millj. kr. tapi í A-hluta. Betri niðurstaða A-hluta ræðst m.a. af auknum rekstrartekjum þrátt fyrir að launakostnaður vegna almennra launahækkana og lífeyrissjóðsskuldbinding hafi hækkað verulega á milli ára. Á síðustu árum hefur svo markvisst verið hagrætt í rekstri sveitarfélagsins sem er að skila sér í lægri rekstrarkostnaði á milli ára. Annar rekstrarkostnaður A-hluta hefur t.d. farið úr 485 m. kr. á árinu 2019 niður í 456 m. kr. á árinu 2021. Einnig var það ánægjulegt að við þurftum ekki að ráðst í eins miklar lántökur á árinu 2021 eins og gert hafði verið ráð fyrir í fjárhagsáætluninni og skuldaviðmið lækkað nokkuð á milli ára eða úr 103% í 93%. Þá hækkaði veltufé frá rekstri í hlutfalli við rekstrartekjur úr 7% á árinu 2020 í 16% á árinu 2021.“ segir Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri.

Lífeyrisskuldbindingar hækkuðu um 62 m.kr. á árinu og voru 249 m.kr. í árslok. Heildarskuldir sveitarfélagsins um áramótin námu 1.759 m.kr. sem gerir 128% af tekjum og lækkaði hlutfallið úr 133%. Tekin lán voru lægri upphæð en greiddar afborganir af langtímalánum. Handbært fé jókst á árinu úr 59 m.kr. upp í 129 m.kr.

DEILA