Uppskrift vikunnar: Kosninga og Eurovision uppskriftir

Finnst við hæfi að vera með tvær smárétta uppskriftir hérna svona fyrir kosningavökuna og auðvitað Eurovision.

En hérna kemur uppskriftin af laxasnittum á ananas eða snittubrauði. Mér finnst þetta mjög góður réttur.

Laxasnittur

Uppskrift, gefur ca. 10-14 bita

100 g laxaflak (endilega frá Vestfirskum framleiðendum)

1 stk. hvítlauksgeiri

2msk Maldon sjávarsalt

Hluti úr ferskum ananas

2-3 msk. sýrður rjómi

1stk skarlottulaukur

Ferskur pipar úr millu

2 msk. ólífuolía

½ búnt ferskur kóríander

Roð- og beinhreinsið laxflakið og skerið í litla teninga. Afhýðið og pressið hvítlauk, fínt saxið skarlottulaukinn, setjið saman við ólífuolíuna, og blandið við laxa teningana, kryddið með salti og pipar.

Framreiðið ofan á ferskan ananas sem búið er að skera í fallega bita, skreytið með sýrðum rjóma og kóríander laufum. Það er líka mjög gott að framreiða á snittubrauði ef þið kjósið það frekar en ananas.

Sveppir.

Fylltir sveppir

Uppskrift (ca. 16 sveppir):

500 g sveppir (gott að velja meðalstóra sveppi, alla svipað stóra)

1.5 msk olía (extra virgin finnst mér best)

4 -5 hvítlauksrif, saxaður mjög fínt eða pressaður

1 blaðlaukur, hvíti hlutinn saxaður mjög smátt

Ítölsk hvítlauksblanda frá pottagöldrum (eða annað gott hvítlaukskrydd)

1/4-1/2 tsk cayenne pipar

Salt og grófmalaður svartur pipar

1 box (200 g) rjómaostur með kryddjurtum, látið ná stofuhita

Ca. 50 g rifinn Parmesan ostur

Ofn hitaður í 175 gráður og ofnplata klædd bökunarpappír. Sveppir hreinsaðir varlega með eldhúspappír og stönglarnir losaðir úr sveppunum. Sveppastönglarnir eru því næst saxaðir mjög smátt og þeir steiktir á pönnu ásamt hvítlauknum og blaðlauknum upp úr olíunni (þess skal gæta að laukurinn brenni ekki). Þegar sveppirnir hafa tekið lit er pannan er tekin af hellunni og látið kólna dálítið. Þá er rjómaosti, helmingnum af parmesan ostinum og kryddum bætt út í og blandað vel saman, smakkað til og kryddað meira eftir smekk. Sveppahöttunum er raðað á ofnplötuna. Hver sveppur er því næst fylltur vel að sveppa/ostablöndunni. Að lokum er afgangnum af rifna parmesan ostinum dreift yfir sveppina. Bakað í ofni við 175 gráður í um það bil 20 mínútur eða þar til sveppirnir byrja að mynda vökva og osturinn hefur brúnast.

Verði ykkur að góðu!

Halla Lúthersdóttir.

DEILA