Undirritaður hefur verið samningur um nýbyggingu tíu íbúða á Bíldudal en það eru
fiskeldisfyrirtækið Arnarlax og sveitarfélagið Vesturbyggð sem standa að verkefninu í samstarfi við Hrafnshóla. Arnarlax á hluta íbúðanna og Vesturbyggð hefur veitt stofnframlög til byggingar hluta íbúðanna, en aðrar verða seldar á opnum markaði og verða þær þá fyrstu nýbyggingarnar sem fara í almenna sölu á Bíldudal í þrjá áratugi.
Næg atvinnutækifæri eru nú á Bíldudal í kringum fiskeldi, kalkþörungaverksmiðju og ýmis konar stoðþjónustu sem byggst hefur upp. Sveitarfélagið hefur blómstrað síðustu ár og fólksfjöldaþróunin snúist við. Fólksfjölgunin í Vesturbyggð var sú mesta á Vestfjörðum í fyrra og alls hefur íbúum í sveitarfélaginu fjölgað um 190 á síðustu tíu árum, þar af um 110 manns á síðustu þremur árum.
Það voru Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, Iða Marsibil Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar, Björn Hembre, forstjóri Arnarlax, og Ómar Guðmundsson hjá Hrafnshóli, sem sérhæfir sig í að byggja húsnæði á landsbyggðinni, sem skrifuðu undir samninginn.
Væntanlegum kaupendum íbúðanna munu bjóðast hlutdeildarlán að uppfylltum skilyrðum, en það eru afborgunarlaus lán fyrir allt að 75% af útborgun í íbúð.
Björn Hembre, forstjóri Arnarlax: „Það skiptir okkur máli að fólk geti skapað sér framtíðarlíf hér á staðnum. Arnarlax auglýsti nýverið 37 störf á einu bretti, þar af 31 með starfsstöð á Vestfjörðum, en núverandi framboð húsnæðis á lausu á Bíldudal dugir ekki til að taka við öllu þessu fólki. Arnarlax ákvað því að leggjast á árarnar með Vesturbyggð í þessari uppbyggingu og styðja við áframhaldandi þróun sveitarfélagsins. Við lítum á samninginn sem við höfum undirritað í dag sem vendipunkt í uppbyggingu svæðisins.“
Iða Marsibil Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar: „Um er að ræða mikilvægt skref í uppbyggingu húsnæðis á Bíldudal og þar með innan sveitarfélagsins í heild sinni. Enda er mikil þörf fyrir íbúðarhúsnæði í Vesturbyggð. Nú þegar rúm 30 ár eru síðan nýbygging á Bíldudal hefur verið auglýst á opnum markaði er það reglulega ánægjulegt að þetta verkefni sé að verða að veruleika í samvinnu við Arnarlax og Hrafnshóla.
—