Nýir tímar

Ég ætla ekki að skrifa beint upp úr málefnaskrá eða beint um verkefni í henni.  Mig langar að skrifa um tilfinningu sem ég hef.  Mig langar að skrifa um tilfinningu sem ég finn vegna uppbyggingar sem hefur orðið hér á svæðinu bæði í atvinnuhúsum og íbúðabyggð, uppbyggingu sem er í pípunum, uppbyggingu sem maður heyri í fyrirtækjum hér í sveitarfélaginu,  uppbyggingu vegasamgangna undanfarin ár.  Tilfinningu sem ég hef um tækifæri sem eru rétt handan við hornið,  Tækifæri sem auðvelt er að missa af en samt svo nálægt til að grípa þau. Tækifæri um verulega breytingu á sveitarfélaginu, breytingu á Vestfjörðum.  Mín skoðun er að við séum svo nálægt því að fara í einhverja mestu uppbyggingu sem orðið hefur hér á svæðinu.  Tækifæri sem allir verða í sameiningu að vinna að, sveitarfélög, pólitíkin, fyrirtækin og íbúar. 

Það er komin tími núna til að snúa vörn í sókn, komin tími núna þar sem allir bæjarbúar, öll fyrirtæki og öll sveitarfélög sigli í sömu átt.  Það er kominn tími til að við hættum að skoða mannfjöldaspá Byggðastofnunar um hvað verður ef ekkert gerist,  ef eitthvað gerist? Háspá, miðspá, lágspá.  Það er kominn tími til að við ákveðum hvert VIÐ viljum fara í mannfjöldaþróun,  tími til að við höfum áhrif á okkar spá og tökum málin í okkar hendur.  tími til að búa til fleiri atvinnuhúsalóðir, fleiri íbúðalóðir, að við gerum landfyllingar ef við þurfum því við ætlum að byggja á þeim, við ætlum að fjölga, við ætlum að stækka.  Við ætlum að laða fólk og fyrirtæki að okkur. Við ætlum að gera okkur að samkeppnishæfu sveitarfélagi. Við ætlum að vera tilbúin, við ætlum að bjóða upp á leikskólapláss, við ætlum að hafa framúrskarandi grunnskóla, við ætlum í uppbyggingu íþróttamannvirkja, við ætlum að þrýsta á ríkið í auknum skatttekjum af fiskeldi, við ætlum að þrýsta á sjálfbærni í orkuframleiðslu svo við getum laðað að okkur fyrirtæki,  við ætlum að taka þátt í Orkuskiptum.  Við ætlum í þessa hagsmunagæslu gagnvart ríkinu.  Sveitarfélög þurfa stærri bita af kökunni til að geta byggt upp innviði og veitt grunnþjónustu.

En við verðum að gera þetta saman, við verðum að koma okkur saman um leið að þessum verkefnum og þessum markmiðum.  Við þurfum öll að róa í þessa átt.  Það er ekki bara hagsmunamál sveitarfélagsins að við náum árangri, að við fjölgum.   Uppbygging innviða er ekki bara hagsmunamál sveitarfélagsins, það er líka hagsmunamál fyrirtækja í sveitarfélaginu, það er líka hagsmunamál íbúa í sveitarfélaginu.  Við þurfum því öll að koma að þessari uppbyggingu.  Við þurfum öll að gera okkar sveitarfélag samkeppnishæft, því þá kemur fólkið til okkar.  Ef fyrirtæki vilja vaxa þá þurfa þau starfsfólk og til að fá starfsfólk þá þurfum við lóðir, þá þurfum við íbúðir.  Þá þurfum við sveitarfélag sem er með skipulagðar lóðir og við þurfum verktaka sem eru til í að byggja íbúðir.  En það er ekki nóg.  Við þurfum líka innviði, við þurfum að vera samkeppnishæf til að fá fólk til okkar.  Það er líka hagsmunamál fyrirtækja að sveitarfélagið sé samkeppnishæft svo við getum fengið fólk til að flytja hingað, til að fyrirtækin getu náð í hæft starfsfólk.

Það liggur mikið á sveitarfélaginu, það er dýrt að stækka,  það er dýrt að byggja upp innviði, það er dýrt að vera með toppþjónustu.  En það er líka dýrt að gera ekki neitt.  Það er líka dýrt að nýta ekki dauðafæri eins og við erum í núna.  Það mun borga sig.

Hver sem þú ert, hvað sem þú brennur fyrir.  Ertu með eldmóð í leikskólamálum, grunnskólamálum, skipulagsmálum, hafnarmálum, ferðamálum?  Ertu íbúi, ertu ungur, ertu eldri borgari, eða hvar sem þú starfar.  Ertu með hugmynd að betri bæ, þorir þú að hugsa stærra og lengra, hvernig Ísafjarðarbæ við viljum 2026 eða 2040?  Við í Framsókn viljum heyra í þér, vinna með þér og fá fram þínar hugmyndir. Við erum sannfærð um að ef við þorum að hugsa stærra og til lengri tíma og þorum að trúa á okkur, komumst við lengra. Samhæft átak bæjarins, fyrirtækja og íbúa samfélagsins þarf til.   Framsókn leggur áherslu á samvinnu og samtakamátt okkar allra í verkefnum næstu ára. 

Kæri íbúi Ísafjarðarbæjar, laugardaginn 14.maí göngum við til sveitarstjórnarkosninga.  Ég hvet ykkur til að nýta kosningaréttinn ykkar til að hafa áhrifa á framtíðina.  Ég hvet ykkur til að kjósa þá sem þið treystið til að leiða sveitarfélagið inn í þau tækifæri sem eru handan við hornið.   Við í Framsókn leggjum fram flottan og fjölbreyttan lista sem vill vinna með öllum sem til eru að vinna með okkur að framtíð Ísafjarðabæjar sem eru til í að vinna með okkur að nýjum tímum í Ísafjarðarbæ.

Kristján Þór Kristjánsson

Oddviti Framsóknar í Ísafjarðarbæ

DEILA