Önundarfjörður: áform um 5 sumarhús á Hóli

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að heimilað verði að vinna deiliskipulag í landi Hóls í Firði. Fyrirhugað er að reisa 5 sumarhús á svæðinu sem sérlóð hefur verið stofnuð um og nefnist hún Bakki.

Hóll í firði er innsti bær i byggð í Önundarfirði. Deiliskipulagssvæðið er norðvestan við bæjarstæði Hóls, svo til mitt á milli Hóls og Vífilsmýrar. Svæðið sem um ræðir er að mestu leiti svæði sem úthlutað var í skógrækt árið 2000 og er lang stærstur hluti þess utan ræktaðs lands og mun frístundasvæði þetta ekki skerða góð landbúnaðarsvæði jarðarinnar.

Einnig er búið að gera fornleifaskráningu og Veðurstofa Íslands hefur gert bráðabirgða áhættumat fyrir svæðið og skv. því telst áhætta svæðinu ásættanleg fyrir frístundahús.

Ragnar Edwardsson, fornleifafræðingur segir í skýrslu sinni að við vettvangskönnun eftir ábendingu heimildamanna hafi tveir minjastaðir verið skráðir; garðlag og sumarbústaður. Samkvæmt heimildamönnum var garðlagið byggt í kringum 1920 á vegum ungmennafélags og var aðallega trjáplöntum plantað innan garðsins. Sumarbústaðurinn var reistur í kringum 1940 af Bóasi Jónatanssyni bróður þáverandi ábúanda. Báðir staðirnir eru innan skipulagssvæðisins en utan frístundalóða og eru þar af leiðandi ekki í hættu vegna framkvæmda. Ekki er líklegt að áður óþekktar fornminjar komi í ljós á deiliskipulagssvæðinu.

DEILA