Ókeypis í leikhús á Vestfjörðum

Heimsveiran hefur haft gífurlega mikil áhrif á listalíf hér á landi sem og um heim allan. Þannig hefur elsta leiklistarhátíð landsins, Act alone, ekki verið haldin síðan 2019. Hátíðin hefur þó leitað leiða í faraldrinum til að starfa áfram og í stað hinnar árlegu hátíðar, hefur Litla Act alone verið haldin í staðin. Á Litla Acti er öllum grunn- og leikskólabörnum á Vestfjörðum boðið á leiksýningu. Litla Act alone verður haldin vikuna 9. – 13. maí og verða alls sýndar 16 ókeypis leiksýningar fyrir æsku Vestfjarða.

Leiksýningar ársins á Litla Act alone eru fjórar og er fjölbreytileikinn í fyrirrúmi. Leikhópurinn Flækja sýnir leikritið, Ef ég væri tigrisdýr. Sýningin fjallar um Láru, 8 ára stelpu sem elskar kattardýr og er gædd öflugu ímyndunarafli. Sirkuslistamaðurinn Daníel sýnir leikinn, Mikilvæg mistök. Daníel leikur allskonar sirkusbrögð einnig kemur amma gamla, sem er brúða, talsvert við sögu. Sú gamla veit nefnilega eitt og annað einsog að það er bara mikilvægur partur af lífinu að gera mistök. Húllatrúðurinn Sól kemur vestur ekki bara með sýninguna sína heldur og alla húllahringina sína og setur upp frábæra sirkussýningu. Loks verður leikurinn, Lalli og Töframaðurinn, á dagskrá hátíðarinnar. Leiksýningin hleypir áhorfendum á bakvið tjöldin við uppsetningu töfrasýningar og veitir þeim einstaka innsýn í töfrandi heim leikhússins með öllum þeim óvæntu uppákomum og leikhústöfrum sem eiga sér stað í því ferli.

Það er sannlega einstök vika framundan í skólum á Vestfjörðum þar sem æskunni gefst einstakt tækifæri til að upplifa töfra leikhússins. Það er Uppbyggingarsjóður Vestfjarða sem er aðalstyrktaraðili hátíðarinnar og gefur okkur einstakt tækifæri að skapa einstaka hátíð. Að endingu er svo rétt að geta þess að Actið, einsog það var í gamla daga, verður haldið hátíðlegt á sínum fasta tíma í ágúst. Nánar tiltekið 4. – 6. ágúst í einleikjaþorpinu Suðureyri. Boðið verður upp á um 20 viðburði og að vanda verður ókeypis á hátíðina og alla viðburði þess. Lífið er sannlega einstakt fyrir vestan.

Dagskrá Litla Act alone 2022

Mán. 9. maí   

Kl. 8.50 EF ÉG VÆRI TIGRISDÝR – Leik- og grunnskólinn Suðureyri

Kl. 8.20 SÓL Á VESTFJÖRÐUM – Grunnskólinn Ísafirði

Kl. 9.45 SÓL Á VESTFJÖRÐUM – Leikskólinn Sólborg og Tangi

Kl. 10.30 LALLI OG TÖFRAMAÐURINN – Grunnskólinn Ísafirði

Kl. 11.00 EF ÉG VÆRI TIGRISDÝR – Leik- og grunnskólinn Súðavík

Kl. 11.30 LALLI OG TÖFRAMAÐURINN – Grunnskólinn Ísafirði

Þri. 10. maí

Kl. 8.50 EF ÉG VÆRI TIGRISDÝR – Leik- og grunnskólinn Þingeyri

Kl. 9.00 SÓL Á VESTFJÖRÐUM – Leikskólinn Eyrarskjól

Kl. 10.30 LALLI OG TÖFRAMAÐURINN – Grunnskólinn Bolungarvík

Kl. 11.00 EF ÉG VÆRI TIGRISDÝR – Leik- og grunnskólinn Flateyri

Kl. 11.30 SÓL Á VESTFJÖRÐUM – Leik- og grunnskólinn Bolungarvík

Fim. 12. maí

Kl. 8.20 MIKILVÆG MISTÖK – Leik- og grunnskólinn Bíldudal

Kl. 10.00 MIKILVÆG MISTÖK – Leik- og grunnskólinn Tálknafirði

Kl. 12.30 MIKILVÆG MISTÖK – Leik- og grunnskólinn Patreksfirði

Fös. 13. maí

Kl. 8.30 MIKILVÆG MISTÖK – Leik- og grunnskólinn Drangsnesi og Hólmavík

Kl. 11.00 MIKILVÆG MISTÖK – Leik- og grunnskólinn Reykhólum

DEILA