Nýkjörnar sveitarstjórnir: fyrstu fundir á morgun

Íþróttamiðstöðin á Hólmavík. Í Strandabyggð hefur fjölgað um 8 íbúa. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Nú er runnið upp nýtt kjörtímabil í sveitarstjórnum landsins og nýkjörnir sveitarstjórnarmenn formlega teknir við. Fyrstu fundirnir verða strax á morgun 31. maí í Bolungavík og Strandabyggð. Á dagskrá verður að kjósa forystu fyrir sveitarstjórnirnar og einnig að kjósa í ráð og nefndir. Ljóst er að breytingar verða í Bolungavík þar sem nýr meirihluti K -listans tekur við af fyrri meirihluta D – listans. Samstaða er hins vegar í bæjarstjórninni um að endurráða Jón Pál Hreinsson sem bæjarstjóra. Í Strandabyggð tekur meirihluti Strandabandalagsins við völdum en listi almennra borgara verður í minnihluta. Búist er við því að Þorgeir Pálsson fyrrverandi sveitarstjóri verði nýr oddviti sveitarstjórnar. Ráðning sveitarstjóra er ekki á dagskrá. Meðal mála á dagskrá verður tillaga um fund með stjórnendum Orkubús Vestfjarða um orkukosti í Strandabyggð.

Fimmtudaginn 2. júní verður fyrsti fundur nýkjörinnar bæjarstjórnar í Ísafjarðarbæ og þar verða einnig valdaskipti þar sem Í listinn vann hreinan meirihluta í kosningunum en Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn verða í minnihluta. Næsti bæjarstjóri verður Arna Lára Jónsdóttir bæjarfulltrúi Í lista og verður sú ráðning væntanlega staðfest á fimmtudaginn.

Fjórða sveitarfélagið á Vestfjörðum þar sem voru listakosningar er Vesturbyggð. Þar urðu úrslit þau að N-listi Nýrrar sýnar hélt meirihluta sínum og sjálfstæðismenn og óháðir verða áfram í minnihluta. Þar verður fyrsti fundur bæjarstjórnar fimmtudaginn 9. júní.

Athyglisvert er að í öllum fjórum sveitarfélögunum skiluðu kosningarnar hreinum meirihluta eins framboðsins. Því hefur ekki þurft að mynda meirihluta eftir kosningarnar með viðræðum milli framboðslistanna.

Uppfært 31.5. kl 14:23. Bæjarstjórnarfundur hefur verið auglýstur í Vesturbyggð og verður hann þriðjudaginn 7. júní og hefst kl 17.

uppfært 31.5. kl 17:39. Fundartíma í Vesturbyggð hefur verið breytt og verður hann fimmtudaginn 9. júní kl 17 eins og sagði í upphaflegu fréttinni.

DEILA