Ísafjarðarbær hefur síðustu tvö ár tapað sem nemur um tveimur knattspyrnuhúsum eða rúmum 1 milljarði króna. Það eru miklir fjármunir. Það eru þó ekki svo að það hafi verið kveikt í þessum peningum. Þeir fóru í að halda uppi þjónustu við bæjarbúa á tímum þar sem tekjur urðu ekki eins og áætlanir gerðu ráð fyrir og útgjöld jukust, m.a. vegna þess að samið hafði verið um metnaðarfullar launahækkanir sem staðið var við. Í kjölfar samninga fækkaði nemendum á hvern starfsmann á öllum skólastigum og vinnutímastytting var innleidd bænum á sama tíma og heimsfaraldur gekk yfir. Hærri laun leiða vonandi til þess að starfsmenn bæjarins hafi það betra og störf hjá bænum eru eftirsóknarverðari en áður. Þannig hefur þessum fjármunum verið vel varið og þeir hafa ekki farið til spillis heldur tryggt þjónustu við bæjarbúa á erfiðum tímum.
Starfsfólk hefur sýnt ráðdeild í rekstri
Bæjarstjóraefni Í-listans, sem nú eftir að hafa setið 16 ár í bæjarstjórn (og telur sinn tíma loksins vera kominn) skrifaði grein um fjármálastjórn bæjarins. Ekki var hægt að skilja niðurlag greinarinnar á annan hátt en að hún telji meirihlutann bera ábyrgð á miklu tapi bæjarins. Heimsfaraldurinn er gleymdur hjá og virðist ekki hafa haft nein áhrif. Telur bæjarstjóraefnið að ráðdeild sé lykilatriði í rekstri bæjarins. Það er út af fyrir sig ánægjulegt og viðurkenning fyrir starfsfólk bæjarins sem sýnt hefur mikla ráðdeild í rekstri og útsjónarsemi í gegn um þær hremmingar sem uppi voru. Sem dæmi má nefna að árið 2021 voru nánast allir þeir rekstrarþættir sem stjórnendur bæjarins höfðu stjórn á reknir samkvæmt áætlun. Eftir heimsfaraldurinn er svo skuldahlutfall bæjarins nánast það sama og árið 2018 þegar núverandi meirihluti tók við. Þrátt fyrir að hafa tapað 1000 milljónum í gegn um Covid er skuldahlutfallið það sama og í upphafi kjörtímabils þegar Í-listinn fór frá. Það ætti því enginn að velkjast í vafa um það hvort að bærinn ráði við að byggja knattspyrnuhús þegar þetta áfall er yfirstaðið fái núverandi meirihluti áframhaldandi brautargengi.
Í ráðdeildargrein bæjarstjóraefnisins kom hinsvegar ekki fram ein einasta tillaga um hvernig ætti að sýna ráðdeild. Verkefnið virðist að hennar mati vera það að skipuleggja lóðir og fá nýja íbúa og fyrirtæki í bæinn og auka tekjur. Það er auðvitað göfugt verkefni og eitthvað sem ætti að stefna að og allir hljóta að vera sammála um. Hitt er þó augljóst að til þess að það verði að veruleika þarf fyrst að fjárfesta og síðar koma tekjurnar. Í millitíðinni þarf að ná endum saman en engar tillögur í þeim efnum eru settar fram.
Nú þegar við komum út úr Covid er mikilvægt að áframhaldandi sé í ráðdeild í rekstri bæjarins og að vel sé farið með fé. Þannig komum við öllu því í verk sem við viljum öll sjá gerast. Fegrun bæjarins, aukin þjónusta við okkur öll og ný mannvirki s.s. til tómstunda og íþrótta sem gera bæinn okkar betri að búa í.
Daníel Jakobsson
Höfundur er fráfarandi bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.