Mannfjöldaspá Byggðastofnunar

Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.

Ávörp í fréttabréfi Vestfjarðastofu hafa oftar en ekki snúist um þann vöxt sem er að verða á Vestfjörðum og útlit er fyrir að verði enn meiri. Vestfjarðastofa setti, á sínu fyrsta starfsári, af stað vinnu við gerð sviðsmynda fyrir atvinnulíf og samfélag á Vestfjörðum 2035. Þessar sviðsmyndir voru hafðar til hliðsjónar við mótun framtíðarsýnar Sóknaráætlunar Vestfjarða 2020-2034 en sóknaráætlunin er einmitt grundvallarskjal í starfsemi Vestfjarðastofu. Sóknaráætlanir landshluta eru stefnumótandi áætlanir. Í þeim sameinast heimamenn um framtíðarsýn, markmið, forgangsröðun verkefna og leiðir til að áætlunin nái fram að ganga.

Framtíðarsýn Vestfirðinga sem birtist í Sóknaráætlun lýsir spennandi framtíð og með samstilltu átaki sveitarfélaga á svæðinu, íbúa þeirra, stofnana ríkisins og ríkisvaldsins mun þessi framtíðarsýn raungerast. Á síðustu árum hafa náðst raunverulegir áfangar sem færa okkur nær framtíðarsýninni. Áfangar sem birtast í Dýrafjarðargöngum og nýjum vegum. Áfangar í atvinnuuppbyggingu og byggingu húsnæðis.

Við rekumst þó á nokkrar hindranir á leiðinni. Það eru ekki allir að kaupa þessa fallegu framtíðarsýn sem Vestfirðingar vilja vinna að. Hindranirnar birtast til dæmis í starfsmönnum ráðuneyta og stofnana sem draga upp mannfjöldaspá Byggðastofnunar sem rök fyrir því að ekki þurfi að fara í verkefni á svæðinu – „þar sem ykkur er hvort sem er að fækka“.  Í þeim rökum liggur nefnilega reginmisskilningur á hlutverki hins opinbera.

Mannfjöldaspá Byggðastofnunar er lýðfræðileg spá sem byggir á fæðingartíðni, dánartíðni og aldurssamsetninu svæða auk þess að skoða flutninga fólks til og frá svæðum. Spágildi hennar felur ekki annað í sér en að gefa mynd af þróun sem verður „að óbreyttu“. Mannfjöldaspáin er semsagt í tilfelli Vestfjarða rautt viðvörunarljós til stjórnvalda sem í alltof langan tíma tóku ekki alvarlega skilaboðum svæðinsins um mikilvægar umbætur á innviðum. 

Mannfjöldaspáin er tæki til að vinna með. Með aðgerðum sem í raun kosta ekki nýja peninga heldur forgangsröðun geta stjórnvöld breytt kúrsinum.  Nýlegar tillögur í orkumálum eru frábært dæmi um það. Við þurfum að breyta hugarfarinu okkar hér heima. Við þurfum að fara úr vörn í sókn – í hausnum á okkur. Við getum og megum látið okkur dreyma um að fólki fjölgi á svæðinu í stað þess að fækka. Við getum og megum byggja upp, skipuleggja ný svæði til uppbyggingar og farið fram í sóknina.

Sigrríður Ólöf Kristjánsdóttir,

framkvæmdstjóri Vestfjarðastofu

DEILA