Líflegt á strandveiðunum í gær

Bolungavíkurhöfn í gær. Mynd: Baldur Smári Einarsson.

Líflegt var á strandveiðunum í gær. Á Patreksfirði lönduðu 45 bátar samtals um 37 tonnum og í Bolungavík voru 37 bátar með um 30 tonn.

Landssamband smábátaeigenda birti yfirlit yfir strandveiðarnar eftir fyrstu 12 daga tímabilsins. Þar kemur fram að á veiðisvæði A sem nær yfir Vestfirði hafi 275 bátar landað afla og eru þeir mun fleiri en á síðasta ári þegar 223 bátar höfðu hafið veiðar. Á landinu öllu eru það 547 bátar sem eru á veiðum. Það er mjög svipað og í fyrra en þá voru þeir 525.

Heildaraflinn á svæði A eftir fyrstu 12 dagana er orðinn 1.223 tonn, sem er aðeins minna en í fyrra þegar aflinn var 1.245 tonn. Heildaraflinn á landinu öllu var orðinn 2.007 tonn en var 2.216 tonn í fyrra.

Um 60% af heildarveiðinni er fenginn á svæði A samkvæmt þessum tölum.

Frá Patreksfirði. Mynd: Patrekshöfn.

DEILA