Landfylling í Skutulsfirði – Norður eða niður?

Nanný Arna Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi.

Stundum fáum við svo góða hugmynd að okkur finnst sem hún eigi fullt erindi við alheiminn. Við ræðum þessa hugmynd við okkar fólk sem tekur undir með okkur og málar hana jafnvel enn fegurri litum. Hugmyndin bólgnar út og verður fljótlega með bestu hugmyndum sem við höfum fengið. Þegar hugmyndin fer svo út fyrir hinn trausta hóp benda einhverjir á að hún kunni að hafa ákveðna vankanta og sé jafnvel ekkert svo frábær eftir allt saman. Það kann að þykkna í okkur – hvers vegna sér fólk ekki gæðin og tækifærin sem okkur virðast svo augljós?

Þegar kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum fá hugmyndir sem geta haft veruleg áhrif á skipulagsmál, þá er það þannig að fylgja þarf ákveðnum verklagsreglum. Reglurnar tryggja rétt hagsmunaaðila, eins og íbúa og atvinnulífsins, til að segja sína skoðun áður en hafist er handa. Þá þarf Skipulagsstofnun að meta gæði hugmyndarinnar út frá gildandi aðalskipulagi og þörf. 

Við horfum nú á eitt svona mál velkjast í kerfinu. Landfyllingu á Skutulsfjarðareyri norðanverðri. Eðlilega hefur stór framkvæmd sem þessi áhrif á marga og eðlilegt er að íbúar hafi skoðanir á framkvæmdinni. Þeir sem nýta sér fjöruna sem þarna er hugsa til þess með hryllingi að hún hverfi. Þeir sem vilja auka byggingarland á eyrinni sjá framkvæmdina í hillingum. Hvar sem fólk stendur þá er það þannig að margir upplifa að ekki hafi verið á þá hlustað.

Mikilvægi samráðs

Samráð um framkvæmdir er mikilvægt og snýst ekki um að láta undan þrýstihópum heldur bjóða öllum að borðinu svo ákveðin sátt geti ríkt um framkvæmdir og sameinast um framtíðarsýn. Það á að vanda til verka í umfangsmiklum og viðkvæmum breytingum á aðalskipulagi. Því ber að skoða alla möguleika og hugsa til framtíðar.

Skipulagsstofnun gerði athugasemdir við tillögu um landfyllingu eins og hún var sett fram. Hún taldi þörfina ekki skýra, samráð við hagsmunaaðila lítið og lagði til að farið yrði í valkostagreiningu. Sú greining var lögð fyrir síðasta bæjarstjórnarfund þessa kjörtímabils. Bæjarstjórn samþykkti einróma að vísa öllum tillögum valkostagreiningarinnar í auglýsingaferli. Unnið verður nýtt kynningarefni sem sett verður í auglýsingu. Eftir sex vikna kynningartíma verður tillagan tekin aftur til umfjöllunar og verður þar tillit tekið til athugasemda og þeim svarað. Ef um meiriháttar breytingar er að ræða þarf að auglýsa tillöguna aftur og aftur gefa sex vikna kynningartíma. Ef um minniháttar breytingar er að ræða er niðurstaðan auglýst og send til Skipulagsstofnunar sem tekur afstöðu til þess hvort samþykkja eigi breytingu á aðalskipulagi, synja því eða fresta. Gögnin sem fylgja valkostagreiningunni sýna fram á nokkra valkosti – ekki bara einn. Þar er sýnt hvernig byggðin getur þróast í mismunandi áttir.

Við getum ekki látið skort á tíma hafa áhrif á faglega og ígrundaða ákvarðanatöku og með því að ráðast í framkvæmdir án þess að fara í gegnum ferli sem þetta erum við ekki að vinna samkvæmt lögum. Með auknu íbúasamráði og bættri upplýsingagjöf getum við komist hjá því að skapa úlfúð um málin. Fólk þarf að vita að rödd þeirra heyrist og skipti máli.

Nanný Arna Guðmundsdóttir, 2. sæti á Í- lista

DEILA