Ísafjarðarbær: skuldar vatnsveitunni 459 m.kr. – vatnsgjaldið lækkað um 80%

Bæjarsjóður Ísafjarðarbæjar skuldar Vatnsveitunni 459 milljónir króna og er hún færð til eignar á efnahagsreikningi Vatnsveitunnar. Heildareignir vatnsveitunnar eru 717 m.kr. og skuldir eru engar. Í gegnum árin hafa rekstrartekjur Vatnsveitunnar verið mun hærri en útgjöldin og rekstrarafgangurinn runnið í bæjarsjóð.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið sendi frá sér bréf til sveitarfélaga haustið 2019 þar sem áréttað var óheimilt væri að vatnsgjald væri meira en sem nemur meðalkostnaði af því að veita þjónustuna, þ.m.t. fjármagnskostnaði, fyrirhuguðum stofnkostnaði skv. langtímaáætlun vatnsveitunnar og kostnaði við skyldu veitunnar til að tryggja nægilegt vatn til slökkvistarfs og fyrir sérstakan slökkvibúnað. Þá væri ekki heimilt að láta Vatnsveitu greiða arð í sveitarstjóð.

Á síðasta ári ákvað bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að lækka vatnsgjaldið um 80% enda skilaði vatnsgjaldið mun hærri tekjum en nauðsynlegt var. Tekjurnar í fyrra námu 98,4 m.kr. og varð afgangurinn 32 m.kr. Þrátt fyrir lækkun vatnsgjaldsins fyrir yfirstandandi ár er gert ráð fyrir að afgangur verði 11,9 m.kr. af rekstri vatnsveitunnar. Til framkvæmda er ráðgert að verja 5 m.kr. og dugar afgangurinn vel fyrir því.

Á fimm ára fjárfestingaráætlun Vatnsveitunnar eru framkvæmdir að fjárhæð 57 m.kr. og miðað við þetta ár mun vatnsgjaldið skila nægum tekjum til þess að standa undir rekstri og framkvæmdum. Lækkun vatnsgjaldsins um 80% virðist ná því að innheimta lögmæta fjárhæð með gjaldtökunni.

Eftir stendur hins vegar uppsöfnuð skuld bæjarsjóðs við Vatnsveituna sem fyrirsjáanlega mun ekki lækka. Miðað við úrskurð ráðuneytisins frá 2019 ætti að endurgreiða notendum Vatnsveitunnar ofgreitt vatnsgjald t.d. með lækkun gjaldsins.

DEILA