Ísafjarðarbær: greiddum atkvæðum fækkaði um 500

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Á síðustu 16 árum hafa orðið miklar breytingar í bæjarstjórnarkosningunum í Ísafjarðarbæ. Greiddum atkvæðum hefur fækkað um liðlega 500 og Sjálfstæðisflokkurinn hefur misst um helming af fylgi sínu. Í þessum fimm kosningum hafa aðeins þrjú framboð fengið mann kjörinn.

Kjörsókn minnkað um 16%

Árið 2006 voru 2.509 greidd atkvæði í sveitarfélaginu en á laugardaginn voru þau 1.990. Fækkunin nemur 519 atkvæðum og hefur þeim fækkað um 21%. Skýringin á þessu er ekki fólksfækkun. Á kjörskrá voru árið 2006 2.859 manns og núna voru 2.775 manns á kjörskrá. Það er aðeins 3% fækkun á kjörskránni. Það er minnkandi kjörsókn sem er ástæðan. Hún var 87,8% í kosningunum 2006 en var komin niður í 71,7% í kosningunum á laugardaginn. Kjörsóknin hefur fallið um 16% á þessum 16 árum. Minnkandi kjörsókn skýrir því fækkun greiddra atkvæða um 444 af 519.

Þessi þróun er ekki bundin við Ísafjarðarbæ á þessu tímabili. Minnkandi kjörsókn einkennir sveitarstjórnarkosningarnar almennt og sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Á tímabilinu hefur útlendingum fjölgað gríðarlega og eru þeir um 20% af vinnuaflinu í landinu. Það er því eðlilegt að athuga hvort skýringarinnar á svona mjög fallandi kjörsókn sé að leita í lágri kosningaþáttöku útlendinga. Norðurlandabúar hafa kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum og aðrir útlendingar sem hafa átt lögheimili á landinu í þrjú ár fyrir kosningar. Í Ísafjarðarbæ voru búsettir árið 2006 233 einstaklingar með erlent ríkisfang 18 ára og eldri en í lok síðasta árs voru þeir orðnir 535. Fjölgunin er 300 manns. Ekki er upplýsingar að finna um kosningaþátttöku útlendinga en mögulegt er að a.m.k. hluti af minnkandi kjörsókn verði skýrð með því að erlendir ríkisborgarar sniðgangi kosningarnar.

Þriggja lista kosningar frá 2006

Það er árið 2006 sem Í listinn kemur fyrst fram og frá þeim tíma eða í síðustu fimm sveitarstjórnarkosningum hafa aðeins þrír framboðslista fengið mann kjörinn, auk Í listans eru það Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn.

Þrisvar kom fjórði listinn fram en í öll skiptin án þess að ná manni inn í bæjarstjórn. Í kosningunum 2010 var það Kammónistalistinn sem bauð fram en hann fékk aðeins 3,8% atkvæða. Í næstu kosningum 2014 bauð Björt framtíð fram og náði 8,2% atkvæða en það dugði þó ekki til árangurs. Listann vantaði þó aðeins 13 atkvæði til þess og hefði þá tekið mann af Í listanum. Loks buðu Píratar fram að þessu sinni en þeir fengu aðeins 4,6% atkvæða.

Það hefur því reynst torvelt verkefni fyrir önnur framboð að ná árangri gegn þriggja lista kerfinu sem verið hefur í Ísafjarðarbæ frá 2006. Það þarf að fara aftur til ársins 2002 til þess að finna nýtt framboð sem náði árangri. Það var framboð Frjálslynda flokksins undir forystu Magnúsar Reynis Guðmundssonar sem fékk 13,4% og örugga kosningu.

Kosningarnar 2006.

Sjálfstæðisflokkurinn tapað helmingi fylgisins

Fylgi Í listans hefur verið býsna stöðugt í þessum fimm kosningum. Lægst var það 39,8% í kosningunum 2010 og mest núna 46,3%. Tvisvar hefur Í listinn fengið hreinan meirihluta og fimm bæjarfulltrúa. Það er í kosningunum 2014 og núna 2022. Í hinum kosningunum hefur Í listinn fengið fjóra bæjarfulltrúa.

Fylgi hinna flokkanna hefur tekið verulegum breytingum. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 43,3% atkvæða í kosningunum 2006 og 42,2% í næstu kosningum. Árið 2014 missti Sjálfstæðisflokkurinn 10% fylgi og fékk 32,3%. Það breyttist lítið 2018 þegar flokkurinn fékk 34,6%. Núna varð annað fylgishrap og það varð aðeins 24,7%. Þannig hefur fylgið lækkað um nærri 20% eða um helming í þessum kosningum. Flokkurinn hefur aðeins tvo bæjarfulltrúa í stað fjögurra áður. Þess ber þó að geta að í kosningunum 2002 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 35,3% og kosningarnar 2006 og 2010 voru betri en þá. En það breytir því ekki að Sjálfstæðisflokkurinn hefur orðið fyrir miklu fylgistapi og hefur misst yfirburðastöðu sína.

Úrslitin 2022.

Gengi Framsóknarflokksins hefur þróast á annan veg. Það var 14-17% í kosningunum fram til 2014. Í síðustu tveimur kosningum jókst fylgið verulega og varð 22,4% árið 2018 og núna 24,4%. Framsóknarflokkurinn er með aðeins sex atkvæðum færra en Sjálfstæðisflokkurinn. Þetta er ótrúleg breyting á aðeins 16 árum.

Það verður fróðlegt að fylgjast með þróun á fylgi framboða í sveitarfélaginu. Ekki síður hvort árangur Í listans verði til þess að velta upp umræðu um uppstokkun á flokkakerfinu á landsvísu. Það hlýtur að vera áleitin spurning í ljósi nýafstaðinna kosninga til Alþingis með vaxandi fjölda framboða og dreifingu atkvæða.

-k

DEILA