Í- listinn: fyrsta verk að ráða Örnu Láru sem bæjarstjóra

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

„Fyrsta verk nýkjörins meirihluta er að skrifa stefnuyfirlýsingu, ráða Örnu Láru sem bæjarstjóra, raða niður í nefndir og koma sér inn í málin.“ segir Gylfi Ólafsson oddviti Í -listans í Ísafjarðarbæ sem vann hreinan meirihluta í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

Gylfi segir fjölmargt á stefnuskránni sem meirihlutinn vilji gera strax en flest krefjist bæði undirbúnings og fjármagns sem ekki er gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun. „Skipulagsmálin hafa verið ofarlega á baugi í kosningabaráttunni og þau munu væntanlega taka talsverða yfirlegu og pælingar fyrst um sinn.“

Fjölbreyttur listi af vel liðnu fólki

Gylfi var inntur eftir því hverju hann þakkaði sigurinn á laugardaginn:

„Kosningasigurinn þakka ég því að við vorum með fjölbreyttan lista af vel liðnu fólki og stefnuskrá sem fór milliveg milli hófsemdar og djörfungar. Kosningabaráttan okkar var vel skipulögð, jákvæð og kraftmikil.

Kosningabaráttan var annars mjög skemmtileg, enda alltaf gaman að spjalla við og kynnast nýju fólki. Baráttan var uppbyggileg af hálfu allra framboða og er vert að hrósa fyrir það. Píratar komu ferskir inn og oft með mjög ólíkar skoðanir þeim sem gömlu flokkarnir þrír báru fram. Framsókn náði sínum besta árangri, og þó Sjálfstæðismenn hafi séð fylgið sitt minnka milli kosninga var þar rekin mjög flott kosningabarátta.

Ég hlakka mjög til starfanna framundan og samstarfsins við minnihlutann og kjörna fulltrúa í öðrum sveitarfélögum á Vestfjarðakjálkanum. Þetta er allt fólk sem er ósérhlífið að vinna að hagsmunamálum fólksins í kringum sig.“

 

DEILA