Í-listinn fyrir börnin okkar og fólkið í sveitarfélaginu

Á laugardaginn verður gengið til kosninga. Sjálfur er ég fráfarandi bæjarfulltrúi Í-listans en á sama tíma helsti stuðningsmaður fólksins á listanum okkar fyrir næsta kjörtímabil. Á listanum erum við með samansafn að frábæru fólki sem er svo sannarlega traustsins vert í að takast á við erfiðar áskoranir á næsta kjörtímabili.

Á líðandi kjörtímabili spurði ég nokkrum sinnum út í snemmtæka íhlutun í skólakerfi ísafjarðarbæjar. Það var ekki að ástæðulausu sem ég spurði en fögur fyrirheit voru um innleiðingu á því í skólakerfinu hjá okkur. Þessi fögru fyrirheit birtust í greinagerð með fjárhagsáætlun. Textinn birtist þar öll árin, nákvæmlega eins öll árin og án þess að farið væri í að vinna að þeirri innleiðingu. Ég benti á að þetta væri innantómt og fannst það koma bersýnilega í ljós í skólakerfinu okkar.

Ég tók sem dæmi sálfræðiþjónustu fyrir börnin okkar. Eitt dæmi sem ég þekki persónulega er að skilað var inn öllum gögnum til Grunnskólans á Ísafirði með beiðni um aðstoð sálfræðings í byrjun janúar 2021. Beiðnin var þess efnis að erindið þoldi ekki bið. Tilkynning kom frá skólanum daginn eftir að búið væri að skila öllum gögnum frá skólanum til skóla- og tómstundasviðs. Ekkert gerðist fyrr en í september sama ár. Þá fékk viðkomandi barn boð um fyrsta viðtal. Við erum að tala um rúmlega 9 mánuðum seinna. Svona þjónusta við börnin okkar er ekki boðleg. Við þurfum að breyta þessu.

Ég sendi fyrirspurn um hversu miklum fjármunum væri eitt í sálfræðiþjónustu á ári hverju. Einnig sendi ég fyrirspurn um hversu mikil vinna liggi á bakvið þá fjárhæð sem eitt er í þennan málaflokk. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá svörin sem ég fékk við þeim fyrirspurnum.

  1. Á árinu 2021 1. janúar til 30. september, hefur skóla- og tómstundasvið greitt kr. 8.161.275.- fyrir aðkeypta þjónustu tveggja skólasálfræðinga. Má áætla að fyrir allt árið 2021 muni kostnaðurinn fara upp í kr. 10.228.519.-
  2. Samkvæmt verktakasamningi eru að hámarki 320 klukkustundir fyrir hvert skólaár frá tímabilinu 20. ágúst til 15. júní. Á þessu ári liggja 280 klst. á bak við kostnaðinn fyrir þjónustu sálfræðingana.  

Þess má geta að inni í þessum kostnaði er ferðakostnaður, gisting og uppihald fyrir umrædda sálfræðinga sem koma til okkar. Það er algjörlega háð því hvort veðrið sé gott og flugfært sé hvort þessir umræddu sálfræðingar komist til okkar til að veita þjónustuna. Ef ekki er flogið geta þeir ekki komið daginn eftir í staðinn, vegna þess að þá eru þeir starfandi á öðrum stöðum, með þjónustu eins og þeir veita okkur. Það er því augljóst að sérhæfð sálfræðiþjónusta fyrir börnin okkar er nánast algjörlega háð því hvort það sé flogið vestur!

Mér finnst augljóst að þarna getum við gert betur. Mér finnst líka augljóst að þarna verðum við að gera miklu betur. Ég mun beita mér að öllu afli fyrir því að þessu verklagi verði breytt og grunnsálfræðiþjónusta fyrir börnin okkar verði tryggð í skólakerfinu okkar. Ég vill að ráðinn verði sálfræðingur inn í skólakerfið okkar sem hefur aðsetur í sveitarfélaginu okkar og getur brugðist við beiðni um viðtal á skemmri tíma en 9 mánuðum. Einnig að viðkomandi skili meira vinnuframlagi en 320 klukkustundum yfir árið, fyrir sömu fjármuni og við erum að eyða í þetta nú þegar.

Það er gríðarlega mikilvægt að við setjum X við Í á næsta laugardag. Með því að tryggja Í-listanum meirihluta í bæjarstjórn tryggjum við börnunum okkar betri þjónustu og auknu samráði við íbúa sveitarfélagsins að öllu leyti.  

Þórir Guðmundsson

skipar 13. sæti Í-listans

DEILA