Háskólasetur – Dr. Brack Hale ráðinn sem fagstjóri meistaranáms

Dr. Brack Hale er nýr fagstjóri fyrir námsleiðina Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða

Dr. Brack Hale hefur verið ráðinn sem nýr fagstjóri fyrir námsleiðina Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða.

Brack Hale er með doktorspróf í landnýtingu frá Wisconsin-Madison háskólanum í Bandaríkjunum, M.E.M. gráðu í vatnsnýtingu frá Duke háskóla og bakkalárgráðu í samanburðarlandfræði frá sama skóla. Hann er prófessor í líf- og umhverfisfræði og deildarstjóri raun- og heilsuvísinda við Franklin háskólann í Sviss.

Dr. Hale hefur mikla reynslu af háskólastjórnsýslu, þróun námskrár, kennslu, gæðamati og stjórnun. Reynsla hans úr lítilli en um leið mjög alþjóðlegri stofnun á borðvið Franklin háskólann í Sviss mun án efa nýtast mjög vel við Háskólasetrið sem einmitt deilir þessum einkennum.

Brack Hale er ekki ókunnugur Háskólasetrinu enda hefur hann undanfarin áratug átt í margvíslegu samstarfi við Háskólasetrið. Hann talar auk þess nú þegar íslensku sem er mikill kostur. Frá árinu 2010 hefur hann komið með nemendahópa frá Franklin háskóla í vettvangsnám á Vestfjörðum og víðar á Íslandi, auk þess sem hann dvaldi í rannsóknarleyfi eina önn við Háskólasetrið árið 2017.

Mikil ánægja er með gæði umsókna en alls sóttu 15 um stöðuna þar af 12 með doktorspróf.

DEILA