Fisktækniskólinn með stóra útskrift á Bíldudal

Það var hátíðleg stund á Bíldudal í síðustu viku þegar Fisktækniskólinn útskrifaði 16 nemendur. Sjö nemendur útskrifuðust af fisktæknibraut og níu nemendur úr fiskeldistækni. Flestir nemendurnir komu frá Arnarlaxi og Artic Fish. Fisktækninámið er tveggja ára grunnnám, 120 einingar á framhaldsskólastigi. Fiskeldistæknin er framhaldsskólabraut á þriðja þrepi, 60 einingar, þ.e. 30 verklegar og 30 bóklegar. Þetta er í annað sinn sem skólinn útskrifar nemendur frá Bíldudal í samstarfi við Arnarlax og Artic Fish.

Á undanförnum árum hefur Fisktækniskólinn átt í mjög góðu samstarfi við Arnarlax. Skólinn – ásamt Arnarlaxi – er samstarfsaðili í Evrópuverkefninu Bridges, sem snýr að því að samræma nám í fiskeldi á framhaldsskólastigi á milli Íslands, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Skólinn vinnur einnig með Arnarlaxi að þróun rafræns kennsluefnis t.d. vegna nýliðafræðslu og endurmenntunar.

Í frétt um útskriftina á vefsíðu Fisktækniskólans segir að störf í haftengdum greinum krefjist stöðugt meiri gæða og aukinnar fagþekkingar starfsfólks. „Það er ávinningur fyrirtækja sem vilja starfa í virku samkeppnisumhverfi að hafa innan sinna raða vel þjálfað starfsfólk með faglega þekkingu.“

DEILA