Ferðafélag Ísfirðinga: söguferð um Bolungavík laugardaginn 21. maí

Ferðasumarið hjá Ferðafélagi Ísfirðinga hefst laugardaginn 21. maí með sögu- og gönguferð um Bolungarvík undir fararstjórn Björgvins Bjarnasonar.  Gengið verður um fjóra garða (kirkju- og varnargarða) og upp að vörðu sem er í um 300 m hæð. Vegalengd göngunnar er 5-6 km og áætlaður tími er 4-5 klst. Erfiðleikastig göngunnar er einn skór en undir það flokkast léttar og stuttar dagleiðir þar sem mest er gengið á sléttlendi.  Þessar ferðir eru flestum færar. Mæting kl. 10 við Bónus á Ísafirði og 10:20 í Bolungarvík við Hrafnaklett (hús UMFB).

Það er óhætt að lofa skemmtilegri og um leið fróðlegri göngu um staðinn undir fararstjórn leiðsögumanns sem þekkir vel staðhætti og er fróður um sögu Bolungarvíkur.  Tökum fram gönguskóna og fjölmennum í þessa fyrstu göngu félagsins.

Það eru allir velkomnir í ferðina, félagsmenn jafnt sem aðrir.

DEILA