Áslaug Friðriksdóttir er bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ

Áslaug María Friðriksdóttir, er bæjarstjóraefni Sjálfstæðismanna í Ísafjarðarbæ í komandi kosningum. Áslaug er fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, hún hefur starfað sem framkvæmdastjóri og leitt fjölbreytt umbótaverkefni. Áslaug er ekki ókunn Ísafjarðarbæ, enda á hún ættir að rekja þangað.

Aðstandendur framboðsins eru afar ánægðir með að hafa fengið Áslaugu til liðs við sig og telja að þekking og reynsla Áslaugar muni nýtast bæjarbúum vel. „Áslaug er með mjög mikla reynslu í að fást við verkefni eins og þau sem við stöndum frammi fyrir, hún hefur unnið í pólitískum störfum, verið í stjórnsýslunni, rekið fyrirtæki og þekkir sveitarstjórnarmálin vel.“, segir Jóhann Birkir Helgason oddviti Sjálfstæðismanna. Reyndar eru Áslaug og Jóhann ekki ókunnug því Áslaug og kona Jóhanns eru systkinabörn. Jóhann Birkir segir að þau tengsl hafi ekki ráðið ákvörðun hópsins heldur hafi verið byggt á meðmælum, hæfni og reynslu.  

Í samtali við BB segir Áslaug að hún hafi ekki átt erfitt með að taka ákvörðun um að gefa kost á sér í þetta verkefni: „Eftir stuttan umhugsunarfrest fann ég að bæði hugur og hjarta sögðu já, enda eru taugarnar vestur afar sterkar og hlýjar. Mér finnst líka að frambjóðendahópurinn sé að slá á nýja strengi, er ferskur og framsækinn en skilur einnig að gott samstarf er forsenda framfara enda leggja þau áherslu á bætt samskipti og samráð við íbúa á svæðinu. Ég er þess fullviss að ég geti lagt margt gott til málanna.“ 

DEILA