Vestfirðir – fullir af orku

Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.

Mikið er um að vera á Vestfjörðum þessa dagana. Víða eru í gangi framkvæmdir á höfnum og þar ber hæst stórframkvæmdir við Ísafjarðarhöfn sem verður lengd um 300 metra og framundan gerbreyting á hafnarsvæðinu. Framkvæmdir hafa einnig verið í gangi við Bíldudalshöfn, framundan eru framkvæmdir við höfnina á Brjánslæk og einnig á Reykhólum. Í Súðavík eru framkvæmdir framundan við höfnina í tengslum við uppbyggingu Kalkþörungaverksmiðju og í Bolungarvík eru framkvæmdir framundan tengdar höfninni vegna uppbyggingar laxasláturhúss. Á Suðureyri eru áform um miklar hafnarframkvæmdir og þar hefur Fisherman þegar byggt nýtt glæsilegt hús.

Fjöldi starfa er auglýstur er mikill skortur á íbúðahúsnæði á svæðinu. Vonandi stendur það til bóta því útlit er fyrir að víða standi fyrir dyrum að byggja nýjar íbúðir. Í Bolungarvík er búið að auglýsa skipulag nýs byggingasvæðis fyrir 50-60 nýjar íbúðir sem er gríðarlega mikilvægt skref fyrir Vestfirði alla þar sem líklegt er að vanti íbúðir fyrir allt að 1000 manns á næstu árum. Áform eru um byggingu tveggja fjölbýlishúsa á Patreksfirði með samtals 15-20 íbúðum. Kynnt voru áform um byggingu nemendagarða með 40 einstaklingsíbúðum við Háskólasetur Vestfjarða og áður höfðu verið kynnt áform um byggingu nemendagarða við Lýðskólann á Flateyri. Vestfirskir Verktakar hafa sótt um lóðir fyrir 40-50 íbúðir á Ísafirði. Nýjar lóðir hafa jafnframt verið auglýstar á Þingeyri.

Vestfirðir eru sannarlega fullir af orku þessa dagana í margþættum skilningi. Auk þess sem að ofan er talið er mikil umræða um orkumál um allt land og ekki síst á Vestfjörðum. Afhendingaröryggi og afhendingargeta á raforku sem er sambærileg við aðra landshluta skiptir öllu máli til að svæðið teljist samkeppnishæft til búsetu og uppbyggingar atvinnulífs. Það gæti virst að borið sé í bakkafullan lækinn með nýrri skýrslu starfshóps sem á síðasta ári var falið að koma fram með lausnir í orkumálum Vestfirðinga. Svo er þó sannarlega ekki og Vestfjarðastofa boðar fyrir hönd Fjórðungssambands Vestfirðinga itl málþings um orkumál miðvikudaginn 6. apríl í Edinborgarhúsinu. Á fundinum verða niðurstöður starfshópsins kynntar og farið yfir mögulegar lausnir til úrbóta í raforkumálum Vestfirðinga.

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,

framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu

DEILA