Strandabyggð: uppsögn sveitarstjóra áfátt og framkvæmdin meiðandi

Þorgeir Pálsson er oddviti og sveitarstjóri í Strandabyggð.

Í gær féll dómur í Héraðsdómi Vestfjarða í máli Þorgeirs Pálssonar, fyrrverandi sveitarstjóra gegn Strandabyggð. Þorgeir stefndi sveitarfélaginu og krafðist biðlauna í þrjá mánuði auk miskabóta í kjölfar uppsagnarinnar. Krafðist hann þess að fá 4,4 m.kr. auk 1,5 m.kr. í miskabætur vegna ólögmætrar uppsagnar.

Þorgeir fékk greidda þrjá mánuði í uppsagnarfrest en deilt var um þriggja mánaða biðlaun sem greiða skyldi í lok kjörtímabilsins ef Þorgeir yrði ekki endurráðinn en biðlaunin myndu falla niður ef Þogeir færi þá í annað starf.

Héraðsdómarinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki skyldi greiða biðlaunin og byggði það m.a. á framburði fyrrevrandi oddvita sveitarstjórnar sem undirritaði samninginn fyrir hönd sveitarstjórnarinnar.

Þá komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að uppsögnin í apríl 2021 hafi verið lögmæt þar sem staða sveitarstjóra sé pólitísk staða og því uppsögn heimil auk þess sem sveitarstjórn hafi verið sammála um að segja sveitarstjóranum upp störfum. Hins vegar hafi sveitarstjórn ekki gætt þess að veita efnislegar skýringar á uppsögninni og ekki leitað eftir sátt um það hvernig sveitarstjóri sinnti starfi sínu og því ekki gefið honum kost á að bæta úr því sem áfátt var og því hafi uppsögnin verið meiðandi og skilyrði uppfyllt fyrir miskabótum.

Var það niðurstaða dómsins að biðlaunakröfunni var hafnað en stefnanda dæmdar 500.000 kr miskabætur. Hvor aðili skal bera kostnað af sínu máli.

Uppfært kl 11:37. Þorgeir Pálsson gerir þá athugasemd að uppsögnin hafi verið dæmd ólögmæt og þess vegna hafi verið dæmdar miskabætur. Hefur fyrirsögn fréttarinnar verið breytt.

Í dómnum segir að sveitarstjón hafi verið einhuga um uppsögnina og hafi verið til þess bær að taka þá ákvörðun. Hins vegar hafi framkvæmd uppsagnar verið áfátt og meiðandi og þess vegna sé skilyrði um miskabætur uppfyllt. Hvergi stendur í dómnum að uppsögnin hafi verið ólögmæt.

DEILA