STEINBÍTUR

Steinbítur getur orðið a.m.k. 125 cm langur en er oftast 50-80 cm. Stærsti steinbítur sem mældur hefur verið af Íslandsmiðum var 124,5 cm.

Heimkynni steinbíts eru í Barentshafi og Norður-Atlantshafi frá Svalbarða, Hvítahafi og Múrmanskströndum meðfram Noregi og inn í dönsku sundin. Þá er hann í Norðursjó og umhverfis Bretlandseyjar og allt suður í Biskajaflóa. Einnig við Færeyjar, Ísland, Grænland og Norður-Ameríku frá Labrador í Kanada og suður til Nýfundnalandsmiða og Bandaríkjanna.

Við Ísland er steinbítur allt í kringum landið en hann er algengastur við Vestfirði.

Steinbíturinn er botnfiskur og kann best við sig á leir- og sandbotni. Hann lifir á 10-300 m dýpi en er tíðastur á 40-180 m dýpi.

Fæða er fyrst og fremst allskonar botndýr einkum skeldýr eins og aða, kúfiskur, sniglar (hafkóngur, beitukóngur), krabbadýr (kuðungakrabbi, trjónukrabbi), ígulker og slöngustjörnur en einnig étur steinbíturinn talsvert af fiski m.a. loðnu.

TungumálSamheiti
Fræðiheiti:Anarhichas lupus
Danska:havkat, stribet havkat, søulv
Færeyska:steinbítur
Norska:gråsteinbit, havkatt, steinbit
Sænska:havkatt
Enska:catfish, wolffish
Þýska:Gestreifter Katfisch, Seewolf
Franska:loup de l’Atlantique, loup de mer, loup marin
Spænska:perro del norte
Portúgalska:peixe-lobo-riscado
Rússneska:Зубатка полосатая / Zubátka polosátaja, Зубатка / Zubátka

Samheiti á íslensku: bláhaus, sladdi, steinbítsbarn, steinbítsgóna

Af vefsíðu Hafrannsóknastofnunar

DEILA