Ráðherra hefur fengið tillögur um orkumál á Vestfjörðum

Mörg áhersluverkefni hafa verið sett af stað í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu til að stuðla að bættu orkuöryggi til lengri og skemmri tíma. Þetta kom fram í ávarpi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á málþingi um orkumál á Vestfjörðum.

Sagði ráðherra vilja stjórnvalda standa til þess að efla stöðu orkumála á Vestfjörðum og að í þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku sé sérstök áhersla lögð á Vestfirði.

Starfshópurinn sem var skipaður heimamönnum og sérfræðingum var fenginn til þess að greina stöðuna heildstætt og fara yfir mögulegar lausnir til úrbóta í raforkumálunum hefur kynnt ráðherra tillögur sínar.

Starfshópurinn leggur áherslu á að vinna að úrbótum og verkefnum sem snerta nánast alla hluta raforkukerfisins. Er í tillögum hópsins fjallað um virkjanakosti á Vestfjörðum, flutning og dreifingu raforku og framtíðarspá um orkunotkun svæðisins.

„Í framtíðarsýn orkustefnunnar segir að orkan eigi að vera hreyfiafl fjölbreyttrar atvinnustarfsemi með jöfnum aðgangi á landsvísu. Þar er einnig að finna metnaðarfull markmið um kolefnishlutleysi og full orkuskipti fyrir árið 2040,“ sagði Guðlaugur Þór og minnti á stöðuskýrslu um ástand orkumála sem kom út í síðasta mánuði og þátttöku landshlutasamtaka í þeirri vinnu.  „Þar er að finna greinargott yfirlit yfir orkumálin. Í sviðsmyndum þeirrar skýrslu blasir við okkur gríðarstórt verkefni sem er að anna aukinni eftirspurn eftir orku fyrir orkuskiptin framundan, í formi raforku eða rafeldsneytis.“

Stjórnvöld leysi þó fá mál ein og óstudd, heldur þurfi þátttöku samfélags og atvinnulífs til að koma góðum málum áfram. „Það er líka einmitt svo að bestu hugmyndir eru hjá þeim standa nærri vandanum, hafa skýra yfirsýn og brenna fyrir umbótum á sviðinu til að bæta sitt nærsamfélag.“

DEILA