Kerecis ræður flóttafólk frá Úkraínu til starfa

Íslenska lækningavörufyrirtækið Kerecis hefur ráðið flóttafólk frá Úkraínu til starfa. Um er að ræða fjóra starfsmenn sem munu starfa fyrir Kerecis í framleiðslu á lækningavörum á Ísafirði, en Ísafjarðarbær hefur sett á fót miðstöð fyrir flóttamenn frá Úkraínu. Hrafnhildur Óðinsdóttir er verkefnastjóri móttöku flóttafólksins og sér miðstöðin um stuðning og húsnæði fyrir fólkið.

“Það gleður okkur að geta stutt við þetta góða fólk sem hefur leitað hingað til Íslands. Stuðningur okkar fellur að grunngildum fyrirtæksins og hófst strax í upphafi stríðsins þegar við sendum vörur til Úkraínu þar sem þær eru notaðar til að meðhöndla sjúklinga og fórnarlömb stríðsins. Nú aðstoðum við enn frekar með því að veita þeim störf,“ sagði Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis. 

Kerecis auglýsti fyrr í mánuðinum laus störf fyrir flóttafólk. Um er að ræða fjölbreytt störf sem mörg útheimta sérfræði- og fagþekkingu. 

Auglýsingunum var komið á framfæri í samstarfi við Utanríkisráðuneyti, Vinnumálastofnun og með því að setja upp auglýsingar í miðstöðvum fyrir flóttafólk.

Fólkið sem Kerecis hefur ráðið til vinnu eru konur sem flúðu Úkraínu ásamt fjölskyldum sínum og koma m.a. frá stríðshrjáðu borginni Kharkiv sem hefur urðið illa úti í stríðinu við Rússland.

„Við erum að ráða til starfa konur sem komu hingað án eiginmanna sinna, eiginmenn sem urðu eftir til að berjast áfram í stríðinu. Þær komu hinga til lands með börnin sín og aldraðar mæður. Við erum þakklát Ísafjarðarbæ sem tekur vel á móti flóttafólkinu og býr þannig um að þau geti tekið virkan þátt í samfélagi og vinnu.“ Sagði Guðmundur Fertram að auki.

Flóttafólkið hefur búið á Fosshótel Lind á Rauðarárstíg fram að þessu en munu flytja til Ísafjarðar þegar miðstöðin fyrir flóttamenn hefur lokið við undirbúning á komu þeirra.

Kerecis er brautryðjandi í framleiðslu á lækningavörum úr þorskroði og fitusýrum sem verja líkamsvefi og græða. Vörur fyrirtækisins eru framleiddar á Ísafirði, vöruþróun fer fram í Reykjavík og sölu- og markaðsstarf rekið frá Washington D.C. svæðinu í Bandaríkjunum og í Sviss.

DEILA