Ísfirðingurinn Kolbeinn Jón Ketilsson tenór syngur í Edinborg

Kolbeinn er einn af okkar fremstu söngvurum og hefur sungið í fjölmörgum uppsetningum Íslensku Óperunnar, í Þjóðleikhúsinu og í óperuhúsum og tónlistarsölum í Evrópu, Asíu og N-Ameríku. Hann hefur sungið með mörgum frægustu hljómsveitarstjórum í heimi s.s. Lorin Maazel, Zubin Mehta, Antonio Pappano og Kurt Masur ásamt að hafa unnið með mörgum helstu leikstjórum og söngvurum sinnar kynslóðar.

Ákveðið var að fara dálítið ótroðnar slóðir á þessum tónleikum og fá til liðs leikara og dansara. Auk þess verður fallegum myndum varpað á tjald á sviðinu til að undirstrika það sem þar fer fram.

Tónleikarnir verða í Edinborgarhúsinu á morgun, 2. apríl kl. 17.00. Matthildur Anna Gísladóttir mun leika með á píanó.

Auk Kolbeins koma fram dansarinn Marinó Máni Mabazza og leikarinn Pétur Eggerz.

Tónlist við dansinn er samin af Guðna Franzsyni en hann er faðir Hildar sem hlaut Óskarsverðlaun fyrir tónlist sína við kvikmyndina Joker fyrir 2 árum.

Dansinn sjálfur er saminn af Láru Stefánsdóttur en hún er eins og Kolbeinn er fædd á Ísafirði og það í sama húsinu Bjargi við Seljalandsveg.

En hvernig kom þetta verkefni til ?

Þannig er að ég bý í Noregi og mér áskotnaðist styrkur frá Norsk-Íslensku menningarnefndinni til að vinna verkefni þar sem fjallað væri að einhverju leyti um samband Íslands og Noregs í aldanna rás. Þar er aldeilis af nógu að taka og ég ákvað að fjalla aðeins um landnámið og hinn gleymda sagnfræðing Þormóð Torfason (1636-1719) sem fáir þekkja. Hann bjó lengi í Noregi, var hirðmaður Danakonunga og stórmerkilegur maður og án efa mikill persónuleiki. Hann þýddi Íslendingasögur á latínu og dönsku og kom þeim á framfæri í hinum lærða heimi síns tíma.

Og tónlistin?

Hún er ekki af lakara taginu þar sem ég og Matthildur Anna flytjum sönglög eftir snillingana Sigvalda Kaldalóns og Edvard Grieg.  Sigvaldi samdi mörg sín fallegustu verk á Snæfjallaströndinni og Grieg sótti sinn innblástur í norska náttúru. Margt líkt með þeim þar þó tónmálið sé vissulega öðruvísi en fallegt er það hjá báðum.

Þú ert fæddur á Ísafirði:

Já ég er fæddur á Ísafirði og var þar mikið á sumrin, móðir mín, Selma Samúelsdóttir, var ættuð frá Ísafirði og afi minn, Samúel Jónsson, átti og rak Smjörlíkisgerð Ísafjarðar, það var alltaf mikið ævintýri að fara vestur og „hjálpa“ afa í smjörlíkisgerðinni. Faðir minn, Ketill Jensson, var fæddur í Reykjavík. Þegar ég var 5 ára fluttist fjölskyldan á Álftanes og þar bjuggum við næstu 10 árin. Þar var gott að alast upp, lítil byggð miðað við það sem nú er og eiginlega sveit og þó nokkrir bændur stunduðu þar hefðbundinn íslenskan búskap. Enginn gagnfræðaskóli var á Álftanesi og var okkur unglingunum ekið með skólarútu í Gagnfræðaskóla Garðahrepps. Síðan lá leiðin í Verslunarskóla Íslands og enn síðar í söngnám við Tónlistarháskóla Vínarborgar. Söngstarfinu fylgja mikil ferðalög og þegar litið er um öxl sést að maður er búinn að fara ansi víða.

Ertu búinn að búa lengi í Noregi?

Við fluttum hingað 2016 frá Köln í Þýskalandi þar sem við höfðum búið síðan 1998 en þar var ég fastráðinn við óperuna til 2000. Konan mín óskaði að vera nálægt aldraðri móður sinni hér í Drammen og því ákváðum við að flytja. Tengdamóðir mín lést svo einungis 2 mánuðum eftir að við fluttum en við ákváðum að vera hér áfram, enda búin að flytja mjög oft í gegnum tíðina og búin fá okkar skammt af búferlaflutningum.

Hver er konan þín?

Konan mín er Unnur Astid Wilhelmsen sem er dóttir Sigríðar Guðmundsdóttur, sem fædd var á Ingjaldssandi í Önundarfirði. Við festum kaup á húsi hér í Drammen í Noregi, húsi þar sem hún er fædd og uppalin í. Elsti hluti hússins er rúmlega 180 ára, og við höfum verið að dunda okkur við að taka það í gegn og betrumbæta. Að takast á við svona lagað er náttúrulega sagan endalausa en sem betur fer vissi maður það ekki þegar byrjað var. Þetta er samt allt að koma, vonandi!“ segir Kolbeinn og brosir út í annað.

Saknarðu Íslands ?

Já að sjálfsögðu, maður saknar fjölskyldu og vina en svo er það líka þannig að maður er eiginlega hvergi meiri Íslendingur en í útlöndum, það er engin tilviljun að mörg fegurstu ættjarðarljóðin íslensku eru ort á erlendri grundu. Núna á okkar tæknivæddu tímum er fjarlægðin samt ekki svo mikil og auðvelt að fylgjast vel með því sem er að gerast heima.

Á þessum 5 árum sem ég hef búið hér í Noregi hefur áhugi minn aukist mjög á sameiginlegri sögu Íslands og Noregs. Rætur þessara tveggja þjóða liggja svo þétt saman allt frá landnámi. Nú í sumar fór ég til Rivedal í Dalsfirði í V-Noregi en þaðan er talið að Ingólfur Arnarson hafi lagt upp til Íslands um 870. Það er dálítið sérstök tilfinning að líta landslagið sem Ingólfur hafði fyrir augunum fyrir um 1150 árum síðan! Ég er með spennandi tónleikaverkefni í smíðum sem sem fjallar óbeint um sameiginlega sögu landanna tveggja sem sýnt verður á Íslandi og í Noregi á komandi ári. Þar verður fléttað saman ýmsum listgreinum og að sjálfsögðu líka sungið.

Aðspurður segir Kolbeinn langt síðan hann söng síðast á Íslandi „ það er svo langt síðan að ég man það ekki! Allavega löngu fyrir Covid þannig að það er kominn tími til!“ segir Kolbeinn og hlær við.

DEILA