Grænlandsgangan : 1300 metra hækkun

Ísfirðingurinn Hólmfríður Vala Svavarsdóttir og ferðafélagar hennar hafa nú verið 12 daga á Grænlandsjökli á göngu sinni frá vesturströndinni yfir á austurströndina. Síðustu daga hefur verið snjóblinda og þá þarf að ganga eftir áttavita sem er tímafrekt og svo er töluvert af nýjum snjó sem gerir sleðana þyngri í drætti.

Síðustu nótt sváfu þau í um 1850 metra hæð sem er svipað og hæstu fjöll á Íslandi. Þau eru búin að hækka sig um 1300 metra en hæst munu þau fara í um 2500 metra og eftir það er allt niður á við. Dagleiðirnar eru farnar að verða yfir 20 km. og með hverjum deginum léttast sleðarnir segir Daníel Jakobsson, eiginmaður Hólmfríðar Völu í færslu um ferðina.

Nú er markmiðið að ná DYE-2 radarstöð, sem yfirgerfin var á níunda áratug síðustu aldar á næstu 2 -3 dögum. Þar er mikilvægur áfangi enda eina áþreifanlega kennileitið á leiðinni og eftir stöðina tekur við flatasti kafli leiðarinnar.

Í ferðalýsingu hópsins segir að þau vakni klukkan sex á morgnanna og leggi af stað klukkan níu. Þau ganga þrjár klukkustundalangar lotur fyrir hádegi með um það bil 10 mínútna stoppi á milli. Þá er tekið aðeins lengra hádegisstopp og svo 5 lotur eftir hádegi. Klukkustund hver. Þau eru yfirleitt að setja upp náttstaði sína uppúr klukkan 6 síðdegis og þá er farið í það að bræða snjó og borða. Þau sofna yfirleitt rétt um og uppúr 10 á kvöldin.

Fyrir leiðangrinum fara Vilborg Arna Gissurardóttir og Brynhildur Ólafsdóttir en aðrir þátttakendur eru Aðalsteinn Árnason, Hermann Þór Baldursson, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, Karen Kjartansdóttir, Sibylle Köll og Steinn Hrútur Eiríksson.

Hópurinn gengur á skíðum með allan farangur í eftirdragi frá jökulröndinni við Syðri Straumsfjörð/Kangerlussuaq á vesturströnd Grænlands, suðaustur yfir hájökulinn allt þar til komið er til sjávar á austurströndinni, skammt frá smáþorpinu Isortoq. Leiðin er alls um 560 km löng og er hæst farið í tæplega 2500 m hæð yfir sjávarmál. Gert er ráð fyrir að hópurinn verði á jöklinum í 3-4 vikur en meðferðis er matur og vistir fyrir 28 daga. Áætlað er að ganga í 8-10 klst á hverjum degi, að meðaltali um 20-25 km á dag, styst fyrst en vegalengdirnar lengjast svo smám saman, sérstaklega þegar komið er yfir hábunguna og halla fer undan fæti.

DEILA